Náttúrufræðistofnun skiptir miklu máli að mati mikils meirihluta þjóðarinnar

05.03.2010

Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að um 72,5% landsmanna telur að starfsemi Náttúrufræðistofnunar skipti miklu máli. Þetta kemur fram í athugun sem Capacent Gallup gerði fyrir Náttúrufræðistofnun í febrúarmánuði, samhliða venjulegum spurningavagni, og er sambærilegt við niðurstöður könnunarinnar undanfarin ár. Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar segist mjög sáttur við það traust og viðhorf til stofnunarinnar sem birtist í niðurstöðunum. „Það er mjög ánægjulegt að sjá þessar jákvæðu niðurstöður núna á þessum erfiðu tímum“ segir Jón Gunnar.

72,5% telja að starfsemi NÍ skipti miklu máli Náttúrufræðistofnun er á svipuðu róli og Embætti sérstaks saksóknara og Heilbrigðiskerfið
72,5% telja að starfsemi Náttúrufræðistofnunar skipti miklu máli. Náttúrufræðistofnun er á svipuðu róli og Embætti sérstaks saksóknara og Heilbrigðiskerfið.

 

72,5% telja að starfsemi Náttúrufræðistofnunar skipti miklu máli

Spurt var hversu miklu máli starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands skiptir. 72,5% sögðu hana skipta miklu máli, 8,1% sögðu litlu máli, en 19,4% hvorki né.

Ekki greindist marktækur munur á trausti í garð stofnunarinnar hvað varðaði aldur, búsetu eða tekjur. Hins vegar mældist marktækur munur á afstöðu til stofnunarinnar eftir kyni og töldu konur mikilvægið heldur meira en karlar. Að sama skapi greindist marktækur munur eftir menntun og töldu þeir sem hafa háskólapróf mikilvægið meira en fólk með grunnskólapróf eða framhaldsskólapróf. Einnig var marktækur munur eftir hvaða stjórnmálaflokk fólk myndi kjósa, en þeir sem myndu kjósa S-lista eða V-lista töldu mikilvægi starfsemi stofnunarinnar ívið meira en þeir sem myndu kjósa aðra flokka.

 

51,7% bera mikið traust til Náttúrufræðistofnunar. Aðeins 3,5% bera mjög lítið traust til stofnunarinnar.

Hversu mikið eða lítið traust berð þú til Náttúrufræðistofnunar Íslands?

Þá var spurt hversu mikið eða lítið traust fólk bæri til Náttúrufræðistofnunar og var niðurstaðan sú að 51,7% sögðu mikið, 8,4% sögðu lítið en 39,8% hvorki né. Ef rýnt er í niðurstöðurnar kemur í ljós að einungis 3,5% bera mjög lítið traust til stofnunarinnar. Samanburður við aðrar opinberar stofnanir sýnir að Náttúrufræðistofnun er á svipuðu róli og Heilbrigðiskerfið og Embætti sérstaks saksóknara, en á eftir Háskóla Íslands og lögreglunni.

 

Upphaflegt úrtak var 1167 manns og fjöldi svarenda 792 eða 67,9%.