Hvað gerir eldgosið í Eyjafjallajökli sérstakt?

26.04.2010
Eyjafjallajökull gýs
Mynd: Kristján Jónasson

Eyjafjallajökull.

Hversvegna hafa önnur eldgos á Íslandi ekki truflað flugumferð? Þetta er önnur tegund af eldgosi.

Flest eldgos á Íslandi eru basaltgos. Oftast eru það hraungos með minni háttar gjóskuframleiðslu, en þegar þau verða í vatni eða í jökli, tæta gufusprengingar bergkvikuna í sundur, svo hún verður öll að gjósku. Slík gjóska er oft gróf eða milligróf og fellur til jarðar skammt frá eldstöðinni. Eingöngu stór og öflug basaltgos hafa áhrif út fyrir landsteinana. Eldgosið á Fimmvörðuhálsi var frekar lítið basaltgos.

Eldgosið í Eyjafjallajökli er ekki basaltgos. Þar kom upp fyrstu dagana svokölluð ísúr bergkvika, ríkari af kísli og alkalímálmum, og miklu ríkari af uppleystum gastegundum. Hún er líka mun seigari en basaltkvika. Nálægt yfirborði losnar gasið úr kvikunni, sem þenst af miklum krafti í froðu, brotnar síðan niður í mjög fínt hveitikennt duft og berst hátt til lofts. Fínustu kornin eru svifryk, sem getur haldist lengi í lofthjúpnum og borist með vindum til annarra landa. Eldgos af þessari gerð hafa því mun meiri áhrif á flugumferð en dæmigerð basaltgos. Þotuhreyflar virðast vera mjög viðkvæmir fyrir gosösku. Gosaskan, sem er úr örsmáum glerkornum, bráðnar í hreyflunum og skemmir þá.

Eldgos sem þetta hefur ekki orðið á Íslandi síðan Hekla gaus árið 1947. Þá voru engar farþegaþotur á sveimi.

Við þetta má bæta að eftir kröftugt gos í Eyjafjallajökli fyrstu dagana hefur dregið verulega úr kvikustreymi, sprengivirkni hefur minnkað og hraun tekið að renna. Við hægara útstreymi aukast möguleikar kvikunnar á að losna við gasið án mikillar sprengivirkni. Einnig er hugsanlegt að samsetning kvikunnar hafi breyst og sé nú líkari basalti, en það er þó ekki ljóst þegar þetta er ritað.

Fimmvörðuháls 1. apríl 2010
Mynd: Kristján Jónasson

Fimmvörðuháls.

Grein á ensku á vef Iceland review, How come other volcanic eruptions in Iceland don’t disrupt air travel? 

Ýmsan fróðleik um eldgos má finna á Vísindavef Háskólans t.d. greinin Hvað getur þú sagt mér um peléeísk og plínísk eldgos? og á bloggsíðu Haraldar Sigurðssonar.

Upplýsingar um gosið í Eyjafjallajökli má finna á vef Jarðvísindastofnunar og hjá Veðurstofunni.