Stöðva á útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils - fréttatilkynning

09.04.2010

Hætta á dreifingu alaskalúpínu í landinu nema á skilgreindum landgræðslu- og ræktunarsvæðum og í ár þarf að hefja starf við að uppræta alaskalúpínu og skógarkerfil á svæðum ofan 400 metra hæðar, í þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum. Þetta eru meðal tillagna sem Landgræðsla ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands leggja fram í skýrslu sem stofnanirnar hafa skilað Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra. Tillögurnar miða að því að takmarka tjón af völdum alaskalúpínu og skógarkerfils í íslenskri náttúru en jafnframt að nýta kosti lúpínu við landgræðslu á rýrum svæðum.

Í nóvember 2009 fól Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra Jóni Gunnari Ottóssyni, forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og Sveini Runólfssyni, landgræðslustjóra að vinna tillögur að aðgerðum til að stemma stigu við útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils hér á landi, en plönturnar eru fyrstu dæmin um ágengar framandi plöntutegundir sem breiðast út hér á landi.

Stofnanirnar mátu útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils og komust að því að alaskalúpínan er orðin mjög útbreidd. Hún finnst víða á láglendi, einkum þó við þéttbýli og á skógræktar- og landgræðslusvæðum. Þá finnst lúpína á allmörgum stöðum á hálendinu. Skógarkerfill er ekki eins útbreiddur en hefur breiðst út þar sem land er ekki lengur beitt. Hann er einna algengastur í Eyjafirði, við þéttbýli á Austfjörðum og á Vestfjörðum en einnig í Reykjavík og nágrenni og á Suðurlandi.

Samkvæmt núgildandi lögum um náttúruvernd og reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda er ræktun þeirra og dreifing óheimil ofan 500 metra, á friðlýstum svæðum og á landslagsgerðum sem njóta sérstakrar verndar, til dæmis eldvörpum, gervigígum og á eldhraunum. Stofnanirnar leggja til að reglugerð verði breytt þannig að notkun lúpínu verði óheimil ofan 400 metra í stað 500. Stofnanirnar telja einnig að styrkja þurfi ákvæði náttúruverndarlaga er varða framandi tegundir. Þá er lagt til að dreifingu alaskalúpínu verði hætt nema á svæðum sem Landgræðsla ríkisins gerir tillögur um að megi nota alaskalúpínu við uppgræðslu og til að undirbúa rýrt land undir ræktun. Tillögurnar verði tilbúnar í lok árs 2010 og lagðar fyrir umhverfisráðuneyti til samþykktar og staðfestingar í reglugerð.

Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðsla ríkisins gera ráð fyrir að fyrrgreindum aðgerðum verði stýrt af sérstakri aðgerðastjórn er starfi í umboði umhverfisráðherra. Stjórnin sjái um samræmingu aðgerða við kortlagningu á útbreiðslu, varnir og upprætingu alaskalúpínu og skógarkerfils.

Hér á landi hafa verið litlar hömlur á innflutningi og notkun framandi tegunda eins og alaskalúpínu og skógarkerfli. Einnig hefur verið lítið um aðgerðir til að hefta útbreiðslu þeirra, með nokkrum undantekningum þó, svo sem í Skaftafelli, Hrísey og Stykkishólmi.

Skógarkerfill hefur skotið sér niður á nokkrum stöðum á verndarsvæði Mývatns og Laxár og þar hefur einnig verið unnið að eyðingu hans. Talið er að tekist hafi að eyða 90% af skógarkerfli í Krókhólmanum í Mývatni á síðastliðnum tveimur árum.

Í Hrísey hafa alaskalúpína og skógarkerfill orðið ríkjandi í gróðri á norðurhluta eyjarinnar sem er á náttúruminjaskrá vegna fjölskrúðugs gróðurs og fuglalífs. Í móunum í Hrísey er eitthvert þéttasta rjúpnavarp á landinu og þar er einnig mikið varp annarra mófugla, æðarfugls og kríu. Talið er mikilvægt að sporna strax við útbreiðslu þessara tegunda í eynni til að viðhalda þeim búsvæðum sem einkennt hafa eyjuna og hefur sveitarfélagið þegar hafið undirbúning að því.

Við réttar aðstæður getur alaskalúpína reynst fyrirtaks landgræðsluplanta, t.d. á víðáttumiklum gróðurvana auðnum. Hins vegar er hún ágeng og erfitt getur reynst að hemja útbreiðslu hennar gagnvart öðrum plöntum. Þegar hún nær rótfestu í grónu landi er ólíklegt að sams konar plöntur og fyrir voru muni þrífast þar að nýju. Reglan virðist því vera sú að alaskalúpína hafi neikvæð áhrif á tegundafjölbreytni. Með óskipulagðri notkun lúpínu er því hætta á að líffræðilegri fjölbreytni sé ógnað hér á landi.

Skógarkerfill hefur ekkert landgræðslugildi og sækir sérstaklega í næringarríkan jarðveg. Hann er hávaxinn og myndar þéttar breiður sem skyggja á og hindra vöxt annarra plantna og ógnar þannig líffræðilegri fjölbreytni.

Skýrsluna „Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi. Útbreiðsla, varnir og nýting. Skýrsla til umhverfisráðherra“ í heild sinni er að finna á vef stofnunarinnar.