Ernir og fálkar skotnir þrátt fyrir stranga friðun

14.06.2010
Fálki á 1. ári með skotsár á höfði og baki
Mynd: Ólafur K. Nielsen

Fálki á 1. ári með skotsár á höfði og baki.

Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands á hræjum friðaðra fugla sem fundist hafa á undanförnum árum sýna að fleiri en fimmti hver örn og fjórði hver fálki sem fundist hafa dauðir hafa verið skotnir. Þetta virðingarleysi fyrir landslögum kemur á óvart, en báðar þessar tegundir eru á válista og stranglega friðaðar, örninn frá 1914 og fálkinn frá 1940. Löggjöf um varðveislu og uppstoppun friðaðra fugla og verslun með þá er gölluð og því er erfitt að koma böndum á þessa ólöglegu iðju. Rótgróin óvild fámenns hóps í garð arnarins á hér einnig hlut að máli og fégræðgi þeirra sem höndla með friðaða fugla.

Fimm (22%) af 23 örnum sem fundust dauðir eftir að hafa öðlast sjálfstæði og yfirgefið foreldra á heimasvæðum sínum reyndust hafa verið skotnir og drápust tveir þeirra örugglega af sárum sínum. Samsvarandi hlutfall var heldur hærra hjá fálkanum en 18 (26%) af 68 fuglum reyndust vera með högl í skrokknum. Einn fálkanna var með 26 högl í sér og hafði greinilega drepist strax en hinir voru með 1 til 4 högl og líklega höfðu flestir komist lifandi frá skotmanninum en áverkarnir átt þátt í dauða þeirra síðar.

Uppsettir fálkar hafa leynt og ljóst gengið kaupum og sölum og má leiða líkum að því að gróðavon sé helsti hvati fálkadrápa. Um áratugaskeið var óheimilt að stoppa upp fálka, nema fyrir opinber náttúrugripasöfn. Með reglugerð sem sett var árið 1996 opnaðist leið fyrir þá sem finna dauða fálka að fá þá uppsetta fyrir sig á löglegan máta, að því tilskyldu að viðkomandi skilaði fuglinum áður til rannsókna á Náttúrufræðistofnun Íslands. Þrátt fyrir blátt bann við verslun með slíka fugla er vitað að slíkt hefur verið reynt. Nauðsynlegt er að stjórnvöld loki fyrir þessa gátt, þ.e. að einstaklingar geti fengið fálka setta upp fyrir sig og jafnframt þarf að kveða á um með skýrum hætti í löggjöfinni að öll verslun með uppsetta strangfriðaða fugla sé bönnuð.

Örn

Haförninn er mjög fáliðaður varpfugl hér á landi en talið er að um 65 varppör séu í stofninum. Örnum hefur fjölgað nokkuð á undanförnum áratugum en þeir voru nær útdauðir skömmu eftir miðja síðustu öld vegna eiturútburðar og ofsókna. Á undanförnum tíu árum (2000-2009) fundust 38 dauðir ernir hér á landi. Ríflega fjórðungur þeirra var annað hvort stálpaðir ungar í hreiðri (5) eða fleygir ungar sem enn voru á sínu heimasvæði (5). Nokkrir ernir voru ekki hirtir (3) eða það illa farnir að ekki var hægt að rannsaka þá með tilliti til hugsanlegra dánarorsaka (2). Alls voru 23 ernir krufðir og röntgenmyndaðir. Fimm þeirra (22%) reyndust hafa verið skotnir og hafa tveir þeirra örugglega drepist af þeim sökum. Aðrir fimm (22%) höfðu lent í grút og veslast upp og fjórir (17%) höfðu annað hvort flogið á eða lent fyrir bíl. Ekki var hægt að greina með vissu dánarorsök hinna níu (39%).

Sjá nánar á vef stofnunarinnar.

Fyrsta árið er örnum erfitt en ungir ernir halda til á heimasvæði foreldra sinna fram eftir hausti og jafnvel fram á útmánuði en eru þá reknir burt og þurfa að sjá sér farborða. Einnig eiga ernir erfitt uppdráttar kringum kynþroskaaldurinn (4-6 ára) ef þeir ná ekki að helga sér óðal. Þeir fullorðnu ernir sem höfðu verið merktir og því unnt að aldursgreina voru annað hvort nálægt kynþroskaaldri (fimm voru 4-7 ára) eða þá fremur gamlir: 14, 15, 16 og 18 ára. Aðeins einn þessara gömlu arna hafði örugglega náð að helga sér óðal.

Fálki

Fálkinn er sjaldgæfur varpfugl á Íslandi og varpstofninn talinn vera 300-400 pör. Stofnstærðin er breytileg og fylgir rjúpnastofninum en með hniki þannig að mest er um fálka 2-3 árum á eftir hámarki í stofnstærð rjúpunnar. Fálkinn er á Válista Náttúrufræðistofnunar Íslands um fugla og er þar flokkaður sem tegund í yfirvofandi hættu. Forsendan fyrir þeirri flokkun er lítill varpstofn. Helstu ógnir eru taldar vera dráp á fullorðnum fuglum, stuldur á eggjum og ungum, hnignun rjúpnastofnsins, eyðilegging á fálkasetrum og uppsöfnun þrávirkra eiturefna í fæðuvefnum. Á Íslandi finnst 30-60% af evrópska fálkastofninum og ábyrgð Íslendinga á verndun fálka því veruleg í alþjóðlegu samhengi.

Á liðnum vetri voru 68 fálkar krufðir á Náttúrufræðistofnun Íslands. Þetta eru fuglar sem fundist hafa dauðir eða deyjandi á síðustu fimm árum og verið skilað til stofnunarinnar. Við gegnumlýsingu fálkanna kom í ljós að 18 fuglar af 68 (26%) höfðu verið skotnir með haglabyssum (sjá myndir). Einn fálkanna var með 26 högl í líkamanum og hafði greinilega drepist strax en hinir voru með 1 til 4 högl og líklega höfðu flestir komist lifandi frá skotmanninum en áverkarnir átt þátt í dauða margra þeirra síðar.

Gegnumlýsing af höfði og framhluta fálka, svörtu blettirnir eru högl
Mynd: Ólafur K. Nielsen

Gegnumlýsing af höfði og framhluta fálka, svörtu blettirnir eru högl.