Leiðangur Náttúrufræðistofnunar til Surtseyjar og Vestmannaeyja 2010

Í Surtsey kom í ljós að tegundum háplantna hafði fækkað frá 2009 og er það þriðja árið í röð sem það gerist. Vekur það spurningar um hvort hámarki hafi verið náð og að tekið sé að halla undan fæti hvað fjölda þeirra varðar. Gróður hafði hins vegar þétt sig og færst út í fuglabyggðinni á suðurhluta eyjarinnar. Varp fugla var með minna móti en hins vegar bar mikið á smádýrum og fundust nýjar tegundir eins og undanfarin ár.

 



Árbók Ferðafélags Íslands fjallar að þessu sinni um Friðland að Fjallabaki.



Árbók Ferðafélags Íslands fjallar að þessu sinni um Friðland að Fjallabaki.

Fjöruarfi og melgresi á norðurströnd Surtseyjar, móbergshæðir að baki. Ljósm. Borgþór Magnússon. Ætihvönn blómstrar og myndar fræ í Surtsey í fyrsta sinn. Ljósm. Borgþór Magnússon.

Gróður

Alls fundust 60 tegundir háplantna á lífi í Surtsey og hafði þeim fækkað um eina frá síðasta ári. Allt voru þetta tegundir sem áður höfðu fundist í eynni en enginn nýr landnemi kom í leitirnar. Frá árinu 1965 hafa fundist 69 tegundir háplantna í eynni en ekki hafa þær allar náð að nema þar land. Árið 2007 var tímabundnu hámarki náð en þá fundust 65 tegundir á lífi. Frá þeim tíma hefur tegundum fækkað um eina til tvær á ári. Það sem vakti einna mesta athygli í ferðinni var að ætihvönn hefur í fyrsta sinn náð að blómstra í Surtsey. Tegundin hefur átt þar erfitt uppdráttar og aðeins tveir einstaklingar náð að skjóta rótum. Hvönnin sem blómstraði hefur nú náð fullum þroska. Plantan var um 120 cm á hæð og með fjölda blómsveipa. Útlit er fyrir að hvönnin muni fella yfir 20.000 fræ er líður að hausti og að henni taki því að fjölga mjög í eynni á næstu árum. Það vakti einnig athygli að krækilyng, sem allnokkuð er af í Surtsey, fannst nú í fyrsta sinn með berjum. Hægt hefur á landnámi fléttna en 87 tegundir hafa fundist á eynni. Athygli vekur hve mikilli þekju nokkrar fléttutegundir hafa náð á móberginu í Austurbunka þrátt fyrir að undirlagið sé tiltölulega óstöðugt. Útbreiðsla engjaskófa og bikarfléttna hefur einnig aukist mikið í máfavarpinu.

 

 



Árbók Ferðafélags Íslands fjallar að þessu sinni um Friðland að Fjallabaki.



Árbók Ferðafélags Íslands fjallar að þessu sinni um Friðland að Fjallabaki.

Fýll með nýklakinn unga. Ljósm. Borgþór Magnússon. Guðrún Stefánsdóttir og Bjarni Diðrik Sigurðsson við mælingar í mellandi í Surtsey. Ljósm. Borgþór Magnússon.

Fuglar

Heildarfjöldi máfa í varpi uppi á eynni var svipaður og undanfarin ár en af þeim voru talin um 200 pör. Mest var um svartbak sem virðist fara fjölgandi en dregið hefur úr varpi sílamáfs sem er næstur svartbaknum að fjölda. Varp silfurmáfs var líkt og undanfarin ár. Af öðrum fuglum var staðfest varp teistu, fýls, sólskríkju, þúfutittlings, maríuerlu og hrafns. Óvíst er um varp lunda og ritu þetta árið.

 

 



Árbók Ferðafélags Íslands fjallar að þessu sinni um Friðland að Fjallabaki.



Árbók Ferðafélags Íslands fjallar að þessu sinni um Friðland að Fjallabaki.

Hnoðakönguló fannst fyrst í Surtsey 2009 og hafði nú augljóslega fest sig í sessi. Ljósm. Erling Ólafsson.

Vestmannaeyjar og öskugrár Eyjafjallajökull frá noðurhluta Surtseyjar að líta. Ljósm. Borgþór Magnússon.

Smádýr

Smádýralíf var blómlegt að vanda einkum í máfavarpinu. Nýjar tegundir bar fyrir augu en gera má ráð fyrir að fleiri komi í leitirnar þegar unnið verður úr sýnum síðar. Lirfa ertuyglu fannst í gróðri í máfavarpinu og er hún ný. Fiðrildið reyrslæða hefur augljóslega fest sig í sessi og hnoðakönguló og mýrakönguló fer fjölgandi. Eyjaraninn sjaldgæfi blómstrar í eynni og sjást mikil ummerki eftir hann á skarfakáli um alla sunnanverða eyna.

 

Aðrar rannsóknir í Surtsey 

Starfsmenn frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslunni gerðu mælingar á ljóstillífun og virkni vistkerfa við mismunandi aðstæður í eynni en mikill munur er á lítið grónum sandsvæðum og graslendinu sem myndast hefur í fuglabyggðinni á suðurhluta eyjarinnar á undanförnum árum. Jarðvegsmyndun var einnig könnuð í fyrsta sinn svo heitið geti. Vísbendingar komu fram um að jarðvegur sé tekinn að þroskast og fundust merki um lagskiptingu hans.

Í samvinnu Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla voru hafnar í leiðangrinum rannsóknir á stofnerfðafræði fjöruarfa og melgresis í Surtsey. Ætlunin er að kanna stofnamyndun þessara tegunda í eynni og bera saman við stofngerðir í Heimaey og uppi á fastalandi. Beitt er sameindafræðilegum aðferðum í þessum rannsóknum. Vonast er til að þær varpi ljósi á það frá hvaða upprunasvæðum þessar tegundir hafa borist til Surtseyjar.

 



Árbók Ferðafélags Íslands fjallar að þessu sinni um Friðland að Fjallabaki.



Árbók Ferðafélags Íslands fjallar að þessu sinni um Friðland að Fjallabaki.

Ríkjandi graslendi í Elliðaey. Í baksýn Bjarnarey og Eldfell og Helgafell á Heimaey. Ljósm. Erling Ólafsson. Gróskumikið graslendi og lundar í Álsey. Ljósm. Borgþór Magnússon.

Álsey og Elliðaey 

Við úttekt á háplöntum fundust 18 tegundir í Álsey en 23 í Elliðaey sem er svipað því og kom fram í rannsóknum í úteyjum fyrir liðlega 40 árum. Í Elliðaey komu nú í leitirnar tvær tegundir sem ekki höfðu verið skráðar áður í úteyjum Vestmannaeyja en það voru grávorblóm og lækjasef. Gróður í eyjunum er mjög tegundasnauður og einhæfur en þar er víðast hvar mjög gróskumikið graslendi sem er undir miklum áhrifum og viðhaldið af ríkulegri áburðargjöf frá lunda og fleiri sjófuglum. Ríkjandi tegundir í því eru túnvingull, vallarsveifgras, hálíngresi og haugarfi. Vísir að slíku graslendi er tekinn að myndast í fuglabyggðinni í Surtsey. Mælingar á ljóstillífun og jarðvegsöndun gróðurlenda í Álsey og Elliðaey sýndu að virkni er þar mjög há. Eyjarani fannst í fyrsta sinn á skarfakálinu í Elliðaey. Í Vestmannaeyjum hafði hann til þessa einungis fundist í Suðurey og Surtsey. 

 

 



Árbók Ferðafélags Íslands fjallar að þessu sinni um Friðland að Fjallabaki.



Árbók Ferðafélags Íslands fjallar að þessu sinni um Friðland að Fjallabaki.

Marianne Phillip og Henning Adsersen við rannsóknir á fjöruarfa í Surtsey. Ljósm. Borgþór Magnússon. Leiðangursmenn í Surtsey, talið frá vinstri: Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon, Kesara Anamthawat Jónsson, Henning Adsersen, Marianne Phillip, Guðrún Stefánsdóttir, Rannveig Guicharnaud, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Starri Heiðmarsson og Erling Ólafsson. Ljósm. Sigurður H. Magnússon.

Leiðangursmenn

Þátttakendur frá Náttúrufræðistofnun voru Borgþór Magnússon, leiðangursstjóri, Erling Ólafsson, Sigurður H. Magnússon og Starri Heiðmarsson; Bjarni Diðrik Sigurðsson og Rannveig Guicharnaud frá Landbúnaðarháskóla Íslands; Guðrún Stefánsdóttir frá Landgræðslunni; Kesara Anamthawat Jónsson frá Háskóla Íslands og þau Henning Adsersen og Marianne Phillip frá Kaupmannahafnarháskóla. Þeir Ingvar Atli Sigurðsson og Erpur Snær Hansen frá Náttúrustofu Suðurlands tóku einnig þátt í ferðunum út í Álsey og Elliðaey, auk þeirra Marinós Sigursteinssonar og Stefáns Áka Ragnarssonar.