Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar rita í Árbók Ferðafélags Íslands
Nýverið kom út Árbók Ferðafélags Íslands 2010 sem að þessu sinni fjallar um Friðland að Fjallabaki. Höfundur er Ólafur Örn Haraldsson forseti Ferðafélagsins og er bókin glæsileg að vanda, prýdd fjölda ljósmynda og korta. Landlýsing er prýðileg sem og lýsingar á gönguleiðum. Í bókinni er jafnframt einkar skemmtilegur fróðleikur um ferðir manna um svæðið fyrr og nú sem farnar hafa verið á ýmsum forsendum, ekki síst í tengslum við smalamennsku.

Í bókinni er allítarlegur kafli um náttúrufar í friðlandinu og er hann ritaður af sérfræðingum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þar fjalla þau Ásrún Elmarsdóttir, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson um gróðurfar, dýralíf og jarðfræði innan friðlandsins. Jarðfræði svæðisins einkennist einkum af eldvirkni og jarðhita en gróður og dýralíf taka einkum mið af veðurfari á hálendinu auk staðbundinna áhrifa frá jarðhita.
Náttúrufræðistofnun Íslands óskar Ferðafélaginu til hamingju með Árbókina.