Nýir fundarstaðir skollabers og rauðberjalyngs

27.09.2010

Staðfestur hefur verið nýr fundarstaður skollabers Cornus suecica í landi jarðarinnar Keldulands á Skaga. Rauðberjalyng Vaccinium vitis-idaea fannst síðan í byrjun september á Langanesströnd, sem er nýr fundarstaður þess.

Skollaber. Ljósm. Sigurður Albert Ármannsson.

Nýr fundarstaður skollabers er í landi jarðarinnar Keldulands á Skaga sem er 7 km norðan við Skagaströnd. Plantan vex ofan við bæinn neðst í hlíðum Katlafjalls. Skollaber hafa lengi verið þekkt á Vestfjörðum og nyrst við Eyjafjörð, en fundust fyrst 1988 nyrst á Skaga, en hefur ekki áður fundist svona sunnarlega á þessum slóðum. Finnandi er einn af eigendum jarðarinnar Sigurður Albert Ármannsson sem einnig tók meðfylgjandi mynd af plöntunni í lok ágúst síðastliðnum.

Þann 3. september síðastliðinn fannst svo rauðberjalyng í landi Miðfjarðarnessels á Langanesströnd þegar Sigrún Sigurðardóttir og Hörður Kristinsson voru þar á ferð. Það sást aðeins á mjög litlu svæði í hlíðinni suðvestur frá bænum í liðlega 100 m hæð yfir sjó. Það var með hálfþroskuðum berjum innan um bláberjalyng. Frá þessum stað eru um 60 km í næsta fundarstað rauðberjalyngs, sem er í Núpasveit við Öxarfjörð. Líklegt er að rauðberjalyngið hafi borist með fuglum á þennan nýja stað. Nánar má lesa um rauðberjalyng í Plöntuvefsjá Náttúrufræðistofnunar.