Litskrúðug páfiðrildi vekja athygli

17.01.2011

Páfiðrildin glæsilegu slæðast stöku sinnum til landsins með varningi þó aldrei nema fáein á ári hverju. Það er því athyglisvert að þrjú slík hafa borist Náttúrufræðistofnun Íslands á jafnmörgum dögum.

Páfiðrildi er algengt og útbreitt á meginlandi Evrópu. Á haustin koma fullorðnu fiðrildin sér fyrir á afviknum stöðum og leggjast í vetrardvala, gjarnan í manngerðu umhverfi, t.d. inni í köldum vöruskemmum. Þess vegna gerist það af og til að þau færast með vörum inn í gáma og berast með þeim hingað til lands að vetrarlagi. Allmörg dæmi eru um slíkar heimsóknir páfiðrilda til landsins en þó fáar á ári hverju. Þau vekja jafnan athygli enda um að ræða mikið augnakonfekt.

Páfiðrildi sem fannst á vörulager hjá Rekstrarvörum í Reykjavík 19. nóvember 2010. Ljósm. Erling Ólafsson.

Þrjú páfiðrildi í Reykjavík á jafnmörgum dögum er einstakt. Þann 17. nóvember fannst eitt í Eimskipum í Sundahöfn, annað á bílaverkstæði í Gufunesi daginn eftir og það þriðja á vörulager í Hálsahverfi 19. nóvember. Þar með hafa alls sex páfiðrildi verið tilkynnt til Náttúrufræðistofnunar á árinu 2010 og eru það óvenju mörg tilvik á einu ári.

Á pödduvef Náttúrufræðistofnunar má fræðast frekar um páfiðrildi.