Náttúrufræðistofnun í Samfélaginu í nærmynd

30.01.2011

Föstudagsþáttur Samfélagsins í nærmynd þann 28. janúar var sendur út frá Náttúrufræðistofnun. Rætt var við sérfræðinga stofnunarinnar um rannsóknir sem þar eru unnar og gengið var um safnaskálana.

Samfélagið í nærmynd sendir út frá Náttúrufræðistofnun. Hrafnhildur Halldórsdóttir, Leifur Hauksson, Guðmundur A. Guðmundsson og Kristján Jónasson. ©KB

Umsjónarmenn þáttarins, þau Leifur Hauksson og Hrafnhildur Halldórsdóttir, ræddu við Jón Gunnar Ottósson, forstjóra, sem sagði m.a. frá nýju húsi stofnunarinnar í Urriðaholti sem er sérsniðið fyrir þarfir hennar. Þau ræddu einnig við Önnu Sveinsdóttur, safnstjóra bókasafnsins, um hlutverk þess og uppbyggingu.

Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur, sagði frá fuglarannsóknum og vöktun fugla og Kristján Jónasson, jarðfræðingur, sagði frá jarðfræðisýnum í eigu stofnunarinnar og jarðfræðikortagerð.

Erling Ólafsson, skordýrafræðingur, sagði frá nýjum landnemum, rannsóknum í Surtsey og pödduvef NÍ og Sigurður H. Magnússon, gróðurvistfræðingur, sagði frá gróðurfarsbreytingum, vistgerðaskráningu og vistgerðakortlagningu.

Gengið var um safnaskála stofnunarinnar í fylgd Guðmundar Guðmundssonar, forstöðumanns safna- og flokkunarfræðideildar, þar sem skoðuð voru sýni og sýningargripir. Að síðustu var gengið um steinaskála í fylgd Kristjáns Jónassonar og m.a. skoðuð steinasöfn Jónasar Hallgrímssonar og Þorvaldar Thoroddsen.

Hlusta má á þáttinn á vef RÚV í allt að sex vikur frá útsendingardegi.