Frjókorn í íslensku hunangi

09.02.2011

Býflugnarækt og hunangsframleiðsla er nýleg aukabúgrein á Íslandi. Í nýrri skýrslu Náttúrufræðistofnunar er greint frá niðurstöðum frjógreiningar á tíu hunangssýnum frá suður- og suðvesturlandi. Líklega er þetta í fyrsta skipti sem íslenskt hunangt er frjógreint.

Cruciferae í íslensku hunangi ©MH

Fjörutíu og tvær frjógerðir frá enn fleiri plöntutegundum fundust í sýnunum, þó aldrei fleiri en 25 í einu sýni en 18 í því sem innihélt fæstar frjógerðir. Algengustu frjógerðir sem koma fyrir í íslenska hunanginu eru kenndar við smára og sveipjurtir. Helmingur hunangssýnanna hafði að geyma meira en 45% af annarri hvorri þessara frjógerða og mega því kallast einplöntuhunang (e. unifloral honey); smárahunang eða sveipjurtahunang.

Reykjavíkurhunangið var með einni undantekningu ríkt af smárafrjói og það var hunangið úr Ölfusi líka. Hekluhunangið skar sig úr bæði hvað varðar tegundasamsetningu og þéttleika frjókorna í hunanginu, en það var langríkast af frjókornum. Rúmlega 110.000 frjókorn í 10 g reyndust vera í hunanginu sem hafði mest af frjókornum en 3500 í því sem fæst frjókorn hafði. Flest sýnanna eða sjö talsins voru fátæk af frjókornum, með minna en 20.000 frjó í 10 g hunangs.

Ljóst er að gróður í nágrenni býflugnabúanna hefur mikið að segja um frjókornin sem safnast í hunangið. Þannig reyndist hunangið úr Húsdýragarðinum í Reykjavík með afar fjölskrúðuga samsetningu og fyrir utan víðifrjó varla hægt að segja að nokkur ein frjógerð væri þar yfirgnæfandi. Ekki er ólíklegt að býflugurnar þar njóti góðs af nálægðinni við Grasagarð Reykjavíkur og fjölbreyttan gróður í Laugardal.

Skýrslan Frjókorn í íslensku hunangi (pdf 1 MB) eftir Margréti Hallsdóttur.

Nánari upplýsingar um frjómælingar á Náttúrufræðistofnun