Gróður við Urriðavatn á Hrafnaþingi
Urriðavatn og nánasta umhverfi er á Náttúruminjaskrá og nýtur bæjarverndar samkvæmt aðalskipulagi Garðabæjar. Friðlandið hefur margþætt gildi en það er vel gróið, gróskumikið með fjölbreyttu gróðurfari þar sem votlendi skipar háan sess. Samspil ólíkra gróðurlenda á tiltölulega litlu svæði og nálægð þess við þéttbýli gefa svæðinu hátt náttúruverndar-, fræðslu- og útivistargildi. Um þetta og fleira verður fjallað á Hrafnaþingi næstkomandi miðvikudag.

Rannveig Thoroddsen, líffræðingur, og Guðmundur Guðjónsson, landfræðingur á Náttúrufræðistofnun, flytja erindi sitt Gróður við Urriðavatn á Hrafnaþingi miðvikudaginn, 23. febrúar kl 15:15 í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ (sjá kort).
Verið velkomin á Hrafnaþing!