Ný bók um rannsóknir á plöntuleifum úr íslenskum jarðlögum

20.04.2011

Bókin er afrakstur rannsókna á plöntuleifum úr jarðlögum, kortlagningu þeirra og aldursgreiningar, auk samanburðarannsókna við aðrar steingerðar og núlifandi tegundir og lýsingu á frjókornum. Friðgeir Grímsson, einn höfunda, nýtti vísindasafn steingervinga á Náttúrufræðistofnun til rannsóknanna og var hann jafnframt starfsmaður stofnunarinnar.

Kápa bókarinnar Late Cainozoic Floras of Iceland.

Bókin er rúmar 850 blaðsíður. Þar af eru um 300 myndasíður með ljósmyndum og teikningum af íslenskum plöntusteingervingum, myndum af fundarstöðum og setgerðum og á annan tug litteikninga sem endurspegla mismunandi gróðurfélög í jarðsögu landsins. Þá er fjöldi taflna sem gefa margvíslegar upplýsingar um steingerða plöntuhluta, varðveisluhætti, einstakar tegundir, skyldleika og uppruna tegunda, dreifingarhætti plantna og vistfræðilegar kröfur þeirra.

Bókinni er skipt niður í fjórtán kafla. Fyrsti kaflinn er stutt kynning á náttúrufræði Íslands fyrir þá sem eru ekki vel kunnugir landinu. Annar kafli fjallar um fyrri rannsóknir á íslenskum plöntusteingervingum frá því að þær hófust fyrir margt löngu og þriðji kaflinn er hrein og bein flokkunarfræði. Þar eru lýsingar á plöntuleifum sem vitað er um úr íslenskum jarðlögum, öllum stærri plöntuhlutum (stórgervingum), einkum blöðum, aldinum og fræjum, en einnig á smásæjum frjókornum.

Kaflar fjögur til ellefu fjalla hver um sig um gróðurfélög frá mismunandi tímum í jarðsögu landsins, frá þeim elstu sem eru vart yngri en 15 milljón ára til gróðurfélaga sem eru um 0,8 milljón ára, en þá voru þau farin að líkjast mjög þeim sem nú finnast hér á landi. Helstu einkenni hvers gróðurfélags eru tíunduð og kynntar hugmyndir um uppruna tegunda og dreifingarleiðir þeirra til Íslands. Fornu Íslensku gróðurfélögin eru einnig borin saman við núlifandi gróðurfélög frá Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu. Með samanburði á fornum gróðurfélögum við nútíma tegundir og kjörvistfræði þeirra er reynt að endurskapa þau fornumhverfi sem hér voru og fá hugmyndir um hvernig þau þróuðust samfara hægfara kólnun í lok nýlífsaldar.

Tólfti kafli fjallar um kenningar sem fram hafa komið um uppruna íslenskra forngróðurfélaga og hvernig plöntur dreifðust til landsins og hvort þær komu hingað eftir einhvers konar landbrú eða ekki. Bornar eru saman hugmyndir manna um hversu lengi landbrú var á milli Íslands og annarra landa og hvenær þær plöntur sem einungis dreifast um stuttar vegalengdir hættu að geta numið hér land. Í þrettánda kafla eru bornar saman plöntutegundir úr íslenskum jarðlögum við núlifandi tegundir og rýnt í það loftslag sem þær síðarnefndu þrífast við í dag í tilraun til þess að átta sig á loftslagsbreytingum í jarðsögu landsins.

Í lokakaflanum segir frá fyrirhuguðum rannsóknum Svíans Alfreds Gabriels Nathorst á plöntuleifum úr íslenskum jarðlögum og rakin er saga tveggja teiknara sem teiknuðu með blýanti hundruðir mynda af steingerðum íslenskum plöntum. Myndir þessar áttu að birtast í allstóru verki sem Nathorst ætlaði að skrifa, en því miður náði hann því ekki áður en hann lést.

Höfundar bókarinnar eru þeir Thomas Denk, Friðgeir Grímsson, Reinhard Zetter og Leifur A. Símonarson og er hún gefin út af Springer Verlag.