Dagur íslenskrar náttúru á Náttúrufræðistofnun

14.09.2011

Í fyrra ákvað ríkisstjórn Íslands að tileinka íslenskri náttúru sérstakan heiðursdag til að undirstrika mikilvægi hennar. Dagurinn sem valinn var er 16. september, fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, en sem frétta- og þáttagerðarmaður hefur hann verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita.

Gönguhópur við Maríuhella í Svína-hrauni. Ljósm. Magnús Guðmundsson

Í tilefni af degi íslenskrar náttúru er boðið upp á ýmsa viðburði víða um land og á höfuðborgarsvæðinu. Náttúrufræðistofnun Íslands ætlar að halda upp á daginn með því að bjóða til hádegisgöngu um hraunið í nágrenni stofnunarinnar undir leiðsögn  Ásrúnar Elmarsdóttur plöntuvistfræðings og Sigmundar Einarssonar jarðfræðings. Gangan hefst kl. 12:15 og er mæting við hús Náttúrufræðistofnunar, áætlað er að hún taki um 45 mínútur. Ef veður verður óhagstætt fellur gangan niður en í hennar stað verður gestum boðið inn í hús þar sem Sigmundur Einarsson mun halda erindi um Búrfellshraun, sambærilegt því sem haldið var á hrafnaþingi á vormisseri.

Sjá nánar dagskrá á degi íslenskrar náttúru á vef umhverfisráðuneytis.