Folafluga, nýlegur landnemi, á góðri siglingu

19.09.2011

Um aldamótin síðustu kom í ljós að stór tegund hrossaflugu hafði sest að í Hveragerði, mun stærri en þær hinar sem allir þekkja. Tegundin, Tipula paludosa, fékk heitið folafluga. Hún breiddist fljótlega út í Ölfusinu og hafði borist vestur yfir Hellisheiði til Kollafjarðar árið 2005. Hún hefur nú hafið innreið sína á höfuðborgarsvæðið, illu heilli, því hér er nokkur skaðvaldur á ferð.

Folafluga á húsvegg í Hafnarfirði 4. ágúst 2011. Ljósm. Erling Ólafsson.

Fyrsta folaflugan í íbúðahverfi í höfuðborginni fannst í ágúst 2010 í Húsahverfi í Reykjavík. Ári síðar fannst önnur við Leirulæk. Hún er því að öllum líkindum mætt til leiks í Laugadalnum, en á þeim slóðum er gósenland fyrir tegundina og því viðbúið, að henni fjölgi hröðum skrefum á allra næstu árum. Á sama tíma hafði hún komið sér fyrir í nágrenni Hamarskotslækjar í Hafnarfirði. Þar fannst sú fyrsta á húsvegg um miðjan júlí í sumar (2011) og allnokkrar í kjölfarið allt fram í byrjun september. Það endurspeglar vel flugtíma tegundarinnar síðsumars.

Folafluga verður varla til fagnaðar í görðum okkar í framtíðinni, því lirfur hennar geta skaðað garðagróður verulega. Þær eru stórir boltar, mikil árvögl, sem halda sig efst í sverði og naga rótarhála plantna svo þær falla og visna. Á pödduvef Náttúrufræðistofnunar má fræðast frekar um folafluguna.