Frjómælingar í Reykjavík og á Akureyri í ágúst

10.09.2011

Frjómagn í Reykjavík í ágúst reyndist rétt í meðallagi og eins og jafnan áður bar mest á grasfrjóum. Einhver frjókorn voru í loftinu alla daga mánaðarins en 21. ágúst var fyrsti dagur sumarsins án grasfrjóa. Á Akureyri var heildarfjöldi nokkru ofan meðallags áranna 1998–2010 og meiri fjöldi en sjö undanfarin sumur. Munar þar mestu um síðustu daga mánaðarins en þá fór hitastig upp undir 20°C og grasfrjó náðu þar með hámarki sumarsins. Fyrsti dagur án frjókorna í lofti kom 15. ágúst, sá dagur var jafnframt með mesta úrkomu í ágúst.

Hálíngresi. Ljósm. Margrét Hallsdóttir

Í Reykjavík eru jafnan fá frjókorn í loftinu í september, það er helst að grasfrjó mælist en frjótölur eru yfirleitt lágar. Í góðviðrinu um síðustu helgi jukust grasfrjó og náðu óvanalegum fjölda þann 3. september en sambærilegur fjöldi hefur ekki mælst síðan árið 2006 og þar áður 1997.

Á Akureyri stefnir í að sumarið 2011 verði í tæpu meðallagi hvað heildarfjölda grasfrjóa varðar en verði tíðarfar í september gott geta komið grastoppar þó svo frjótalan verði aldrei mjög há og fáir dagar í hverjum toppi.

Mælingarnar á frjókornum standa út september svo fremi sem bilanir komi ekki upp. Heildaryfirlit yfir frjótölur í ár, sumarið 2011, ásamt myndritum mun birtast í nóvember á vef NÍ á síðunni Frjómælingar 2011, þegar uppgjöri og samanburði við fyrri ár er lokið.

Sjá nánar fréttatilkynningu (pdf).