Spánarsniglar nema nýja slóð

05.09.2011

Spánarsniglar hafa haft heldur hægt um sig í sumar og þeirra lítið orðið vart. Sumarið hóf vissulega seint innreið sína og var óvenju þurrt í langan tíma. Það hvort tveggja kann að hafa haft sitt að segja. Þó hefur komið í ljós að spánarsnigillinn hefur fundið sér nýjar lendur á Akranesi.

Sennilega hefur tíðarfar sumarsins 2011 verið spánarsniglum óhagstætt víðast hvar á landinu, þó þess sé vart að vænta að þeir líði fyrir það alvarlega til lengri tíma litið. Kuldi heldur eflaust nokkuð aftur af þeim en þurrkatíð þola þeir ágætlega enda ættaðir frá þurrum, suðlægum slóðum. Hins vegar eru spánarsniglar, sem aðrir sniglar, síður sýnilegir í langvarandi þurrkatíð.

Í sumar hafa Náttúrufræðistofnun Íslands borist tvær sendingar af spánarsniglum. Önnur meint tilvik hafa reynst tengjast öðrum tegundum snigla. Það skal tekið fram, að tilkynningar í síma eða tölvupóstum duga ekki til staðfestingar nema skýrar ljósmyndir fylgi. Eintök í hendi eru oftast nauðsynleg til að skera úr um tegund.

Spánarsniglar á Akranesi, 16. ágúst 2011. Ljósm. Erling Ólafsson

Þann 10. ágúst fundust tveir spánarsniglar í Vogahverfi í Reykjavík og var Náttúrufræðistofnun færður annar þeirra. Hinum var fargað. Nokkru síðar, eða 16. ágúst, fundust 15 spánarsniglar í garði á Akranesi og voru tveir þeirra sendir til Náttúrufræðistofnunar. Akranes er nýr fundarstaður tegundarinnar og er ekki ástæða til að fagna því. Skagamenn eru því hvattir til að vera á varðbergi og bregðast við hart ef fleiri slíka ber á þeirra fjörur.

Á pödduvef Náttúrufræðistofnunar er umfjöllun um spánarsnigil. Þess má og geta að breytinga er farið að gæta á útliti spánarsnigla hér á landi. Þeir eru nú mun minni en hinir fyrstu sem numu hér land, flestir álíka stórir og svartsnigillinn, sem var hér fyrir og margir kannast við. Auk þess hefur rauði liturinn dofnað og eru þeir orðnir meira rauðbrúnir á lit. Fyrir þessar sakir eru spánarsniglar nú minna áberandi en fyrrum.

Ef hlýindi halda áfram nú í september má búast við að spánarsniglarnir verði á kreiki fram á haustið, áður en þér kjósa að grafa sig niður í jarðveginn til vetrardvalar.