Sveppir alls staðar á Vísindavöku

26.09.2011

Það var gestkvæmt á sýningarbás Náttúrufræðistofnunar Íslands á Vísindavöku Rannís sem haldin var 23. september síðastliðinn. Yfirskrift sýningarinnar var Sveppir alls staðar. Þar voru veggspjöld með upplýsingum um sveppi, eiginleika þeirra og lífsstíl auk þess sem fræðast mátti um matsveppi. Hægt var að skoða ýmsa sveppi á staðnum, stóra sem smáa.

Þeir voru ekki ætir sveppirnir sem voru til sýnis í bási Náttúrufræðistofnunar á Vísindavöku en myglusveppir á brauði, rotsveppir á taði og ýmsir aðrir sveppir vöktu áhuga barna og fullorðinna. Sveppafræðingur stofnunarinnar, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, var á staðnum og svaraði spurningum áhugasamra og útskýrði það sem fyrir augu bar. Á veggspjöldum mátti lesa ýmiss konar fróðleik um sveppi og mikilvægi þeirra í hringrás náttúrunnar og þeim sem finnst gaman að fara út í náttúruna að tína sveppi voru gefin heilræði þar að lútandi. Ýmislegt var í boði fyrir börnin, svo sem litablöð, sveppagoggur og verkefni.

Fréttastofa RÚV mætti á Vísindavöku og tók tal af sveppafræðingnum Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur og má nálgast fréttina á heimasíðu RÚV.

Hér að neðan má sjá myndir frá sýningarbás Náttúrufræðistofnunar.

 

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sýnir glaðbeittri stúlku sveppi. Ljósm. Anette Th. Meier
Taðblína, Stropharia semiglobata, er rotsveppur sem vex á taði. Ljósm. Anette Th. Meier
Áhugasöm stúlka virðir fyrir sér ólíka sveppi. Ljósm. Erling Ólafsson
Bleikskæni, Peniphora incarnata, er rotsveppur sem vex hér á sneið af sitkagreni. Í baksýn er furusveppur, Suillus luteus. Ljósm. Anette Th. Meier
Í víðsjánni mátti skoða örsmáa rotsveppi á rotnandi rótum. Ljósm. Erling Ólafsson
Ungar dömur fylgjast einbeittar með útskýringum Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur. Ljósm. Kjartan Birgisson
Ungar stúlkur í goggagerð. Ljósm. Kjartan Birgisson
Fjölmenni í sýningarbás Náttúrufræðistofnunar. Ljósm. Kjartan Birgisson

 

Í tilefni af Vísindavöku gaf Náttúrufræðistofnun út bæklinginn Sveppir alls staðar þar sem upplýsingar um sveppi eru gerðar aðgengilegar fyrir almenning:

Fræðslubæklingurinn Sveppir alls staðar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

Fyrir Vísindavöku 2011 var unnið fræðsluefni um sveppi fyrir börn og það má nálgast hér að neðan. 

Lausnir á verkefninu Hvar vex sveppurinn má nálgast hér.

Hvar vex sveppurinn, verkefni um sveppi og vaxtarstaði þeirra
 
Sveppagoggur
Litablað 1
Litablað 2
Litablað 3