Til hamingju með daginn!

16.09.2011

Alla daga ársins eru sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands að rannsaka og skoða náttúru Íslands og því er það stofnuninni fagnaðarefni að geta nú, ásamt landsmönnum öllum, haldið sérstaklega upp á „Dag íslenskrar náttúru“ í fyrsta skipti.

Ragnar Axelsson, RAX, með fjölmiðlaverðlaunin 2011 og umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir. Ljósm. Kjartan Birgisson

Umhverfisráðuneytið bauð til hátíðarsamkomu í Búrfellshrauni en vegna veðurs var samkoman flutt inn í hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti. Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, og afmælisbarn dagsins, Ómar Ragnarsson, héldu hátíðaræður í tilefni dagsins. Þá var tilkynnt hver hlyti fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðherra í ár og var það Ragnar Axelsson, RAX,  ljósmyndari Morgunblaðsins, sem hlaut þau. Verðlaunagripurinn, sem hannaður er af Finni Arnari Arnarsyni, er krækiber en á því er lítið Ísland staðsett á berinu á sama stað og Ísland er staðsett á jarðarkúlunni. Kallast verkið Jarðarberið.

Á milli atriða söng kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Samkomunni var útvarpað beint á Rás 1 í þættinum Samfélagið í nærmynd og má hlusta á þáttinn á vef Ríkisútvarpsins.

Náttúrufræðistofnun óskar RAX innilega til hamingju með verðlaunin en lesa má frekar um fjölmiðlaverðlaunin og verðlaunagripinn á heimasíðu Umhverfisráðuneytisins.

 

kór, dagur íslenskrar náttúru  göngustígur, Garðabær, eldri borgarar, dagur íslenskrar náttúru 
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð tekur lagið undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Ljósm. Kjartan Birgisson. Eldri borgarar í Garðabæ ásamt bæjarstjóra og bæjarverkfræðingi leggja af stað í göngu frá Garðatorgi að húsi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ljósm. Erla Bil

 

Til stóð að Náttúrufræðistofnun Íslands byði upp á hádegisgöngu í tilefni dagsins en vegna veðurs var ákveðið að halda dagskránni innandyra þar sem Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hélt erindi um Búrfell og Búrfellshraun.

Umhverfisnefnd Garðabæjar hélt upp á daginn með því að opna og kynna nýja gönguleið um Garðahraun sem liggur frá Flatahverfi og tengist upp í Urriðaholt og Heiðmörk. Efnt var til göngu frá Garðatorgi að húsi Náttúrufræðistofnunar.