Fylgifiskar innfluttra pottaplantna

Athyglisvert moldarsýni


Úr innfluttum blómapotti: Þúsundfætlan Oxidus graxilis. Október 2011. Ljósm. Erling Ólafsson

Snemma í október (2011) tók undirritaður til skoðunar lítið jarðvegssýni úr innfluttum blómapotti í stórverslun sem flytur inn pottablóm og allrahanda gróðurvörur aðrar. Sýnið var tekið við rótarháls plöntunnar í pottinum. Það er skemmst frá að segja að í þessu litla sýni fundust tvær fiðrildalirfur (óþekkt tegund), nokkur fjöldi þúsundfætlna (af tegundinni Oxidus gracilis), ungviði garðaklaufhala (Forficula auricularia), ánamaðkur (Lumbricidae) og hvítmaðkur (Enchytraeidae). Þetta litla dæmi sýnir að viðvaranir undirritaðs við ýmis tækifæri eru ekki úr lausu lofti gripnar.


Úr innfluttum blómapotti: Óþekkt fiðrildalirfa, sennilega af ætt vefara (Tortricidae). Október 2011. Ljósm. Erling Ólafsson

Hér er eingöngu vitnað til smádýra í jarðveginum enda ekki aðrar lífverur skoðaðar í þessu tilfelli. Flestir gera sér grein fyrir því hvað jarðvegur (í þessu tilfelli gróðurmold) er.  Gróðurmold er vistkerfi með fjölda lífvera sem nauðsynlegar eru fyrir kerfið til að virka. Plantan í pottinum þrifist varla ef ekki væri til staðar fjöldi örvera, þ.e. gerla og sveppa, sem þær lifa í sambýli við. Án slíks sambýlis væri plöntunum örðugt um upptöku næringarefna. Í innflutta jarðveginum eru örugglega einnig frumdýr, þráðormar og fleira úr dýraríkinu og algengt er að sjá þörungaskán á yfirborðinu, jafnvel dágóða þekju mosa.


Úr innfluttum blómapotti: Ungviði garðaklaufhala (Forficula auricularia). Október 2011. Ljósm. Erling Ólafsson

Hver er hættan?

Einhver kann að spyrja, hvað er svona varasamt við þetta? Það er ljóst að flestar þessar lífverur kunna að vera tiltölulega meinlausar en svo verður því miður ekki sagt um þær allar. Þó sumar þeirra séu ekki til ama í heimkynnum sínum þá kunna þær að akta á annan hátt hér í nýjum heimkynnum. Það er alþekkt að tegundir sem eiga sinn sess í gamalgrónu samfélagi lífvera, sem þróast hefur eftir náttúrulegum forsendum í tímans rás, fara úr böndum þegar þær koma inn í annars konar samfélög lífvera. Í gamla samfélaginu koma sníklar og afætur á þær böndum og halda þeim í eðlilegu horfi. Þannig virkar náttúran ef hún fær til þess frið. Jafnvægi í samfélögum getur verið afar viðkvæmt og nýjar tegundir sem kunna að koma til geta komið af stað mikilli ólgu. Á nýja staðnum losna þær gjarnan undan viðjum gömlu sníklanna, sem héldu þeim í skefjum, og geta því fjölgað sér óhamið alla vega á meðan nægt er fæðuframboðið sem svo aftur getur rýrt kjör annarra tegunda sem fyrir voru og komið ríkjandi jafnvægi í uppnám. Um þetta mætti rita langt mál því um heim allan eru dæmin ótalmörg.

Mikið að gerast

Miklar breytingar eru að verða á smádýrafánu landsins okkar um þessar mundir sem tengja má stöðugum og ómeðvituðum innflutningi dýra og hlýnandi loftslagi sem gerir sumum þeirra fært að setjast hér að (sbr. garðaklaufhala). Innflutningur smádýra er alls ekki nýr af nálinni. Hann hófst örugglega með fyrstu landnámsmönnum og hefur átt sér stað allar götur síðan. Margar tegundir sem nú þykja sjálfsagðar í lífríki landsins okkar eru þannig til komnar á einhverjum tímapunkti.

Á pödduvef Náttúrufræðistofnunar má kynna sér fjölmörg dæmi um nýja landnema á síðustu árum og verða þeir því ekki tíundaðir frekar hér. Þar má einnig sjá að flestir landnemanna hafast við í görðum okkar og eru þeim háðir alla vega fyrst um sinn. Á því kann að verða breyting síðar meir og þá er stökkið tekið út í villta náttúru. Það liggur vissulega ekki fyrir haldgóð vitneskja um það hvernig þessir nýliðar hafa borist til landsins. Þar eru margir kostir í stöðunni og sjaldan til ráð til að forðast þetta. Þó þykir afar líklegt að innflutningur á gróðurvörum, einkum pottaplöntum, eigi drjúgan hlut að máli.

Innflutningur plantna og regluverkið

Fyrir skömmu gerði Sigurgeir Ólafsson, plöntusjúkdómafræðingur, ágæta grein fyrir reglum sem gilda um innflutning af þessu tagi (sjá Fréttablaðið 21. október 2011). Þar kemur skýrt fram vanmáttur okkar í þessum efnum gagnvart regluverkinu. Eins og Sigurgeir ritar: „Ísland hefur skuldbundið sig með aðild að alþjóðasáttmálum að nota ekki plöntuheilbrigðisreglur til að hefta viðskipti og að beita ekki slíkum reglum nema þær séu tæknilega réttlætanlegar og rökstuddar.“  Þetta er einstaklega merkileg skuldbinding. Hún sýnir að „bisniss“ sem kemur aurum í valda vasa skuli ráða yfir heilbrigðri skynsemi. Og hvaðan skal rökstuðningur koma? Frasinn sem oft er til vitnað, að náttúran skuli njóta vafans, er geymdur og falinn.

Sigurgeir bendir á að heilbrigðisvottorð séu gefin út fyrir innfluttar plöntur og að þau „...nái einnig yfir þá mold sem umlykur ræturnar og á að votta að þeir skaðvaldar sem innflutningslandið vill verjast ... fylgi ekki plöntunum“. Það væri áhugavert að sjá vottorðið sem fylgdi sýninu sem vitnað er til í upphaf þessa pistils. Sama má segja um innflutta eriku sem keypt var fyrir nokkrum árum í Reykjavík. Þegar hún var tekin upp úr pottinum til umpottunar kom í ljós spánarsnigill í botni pottsins. Þá má vitna til þess að undirritaður var fyrir alllöngu síðan kallaður til til að skoða gám á hafnarbakka í Sundahöfn. Í honum var sending af uppétnum pottaplöntum og krökt af sökudólgum. Sendingunni fylgdi vissulega heilbrigðisvottorð með stimplum.

Ræktum heima

Undirritaður hefur verið málsvari þess að hérlendum garðyrkjubændum verði falið og treyst til að annast ræktun þeirra plantna sem við viljum skreyta umhverfi okkar með, hvort heldur er utan húss eða innan. Til þess er full ástæða ef ekki er „tæknilega réttlætanlegt“ að standa í vegi fyrir óskynsamlegum innflutningi. Er þetta ekki verkefni fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands að koma að á einhvern hátt?

Í grein sinni bendir Sigurgeir enn fremur á að það muni hafa „...veruleg áhrif á það úrval plantna sem garðáhugamenn hafa til ræktunar“. Það er án efa rétt að eitthvað myndi draga úr úrvalinu. En er stór skaði af því? Þurfum við að rækta allt? Eiga allt? Yrði ekki úrvalið nóg samt? Sigurgeir bendir í þessu sambandi á aukinn áhuga á ræktun ávaxtatrjáa og berjarunna. Undirritaður, e.t.v. fáfróður í þessum efnum, leyfir sér að halda að fáar plöntur séu eins auðveldar í uppræktun í íslenskum gróðurhúsum og slíkar. Sköpum vinnu í túninu heima, ekki veitir af. Garðyrkjubændur okkar kunna vel til verka og eru auk þess námfúsir og nýjungagjarnir.

Varnarleysi

Þó undirritaður hafi „...ítrekað gagnrýnt að heimilt sé að flytja inn jarðveg“, eins og Sigurgeir getur um í þakkarverðri grein sinni, þá hefur undirritaður í sjálfu sér ekki haft trú á að það geti orðið til nokkurs annars en að benda á hætturnar sem fylgja óheftum innflutningi af þessu tagi. Því verður þá ekki haldið fram að það hafi ekki verið gert. Við Sigurgeir, kollegi minn ágætur, vitum báðir að við fáum ekki við regluverk viðskiptamanna ráðið.

 

Erling Ólafsson