Garðaklaufhali styrkir stöðu sína


Garðaklaufhalar, tveir karlar og ein kerla, sem teknir voru í kjallara íbúðarhúss í Hafnarfirði 10. október 2011. Ljósm. Erling Ólafsson

Garðaklaufhali (Forficula auricularia) hefur verið þekktur hér á landi allt frá byrjun síðustu aldar sem slæðingur. Á seinni hluta aldarinnar fór að verða vart við tilraunir til landnáms í húsum, m.a. í Búðardal og á Álftanesi og síðar í Hólahverfi í Reykjavík, þar sem klaufhalinn fór auk þess að stinga sér niður í húsagörðum. 

Undanfarið hafa klaufhalarnir heldur betur látið á sér kræla en það er einmitt á haustin sem þeir geta orðið áberandi. Þeir leita þá gjarnan margir saman í síminnkandi ætið og til að koma sér fyrir í vetrardvala. Í tveim aðskildum hverfum í Hafnarfirði hefur orðið vart við slíka samsöfnun. Á öðrum staðnum hafði fjöldi dýra safnast saman í kjallara gamals íbúðarhúss og fundust einnig í laufbyng í aðliggjandi garði þegar eftir þeim var leitað þar. Í hinu tilvikinu drógust klaufhalarnir að blómapotti á verandarpalli og gerðu sig einnig heimakomna inni á heimilinu.

Úr því að garðaklaufhali er kominn á þetta stig landnáms má fastlega gera ráð fyrir fjölgun hans í görðum á höfuðborgarsvæðinu á komandi árum. Það má fræðast frekar um tegundina á pödduvef Náttúrufræðistofnunar.