Ársfundur Náttúrufræðistofnunar Íslands 2012

Á ársfundinum flutti Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ávarp og fjallaði meðal annars um endurskoðun náttúruverndarlaga á grundvelli hvítbókar um löggjöf til verndar náttúru Íslands, aukið hlutverk Náttúrufræðistofnunar við eflingu náttúruverndarlaga og aðkomu stofnunarinnar að friðlýsingum náttúruminja. Ráðherra nefndi mikilvægi vöktunar og að áherslu beri að leggja á kortlagningu gróðurs og vistgerða á láglendi. Það sé liður í að við getum tekið upplýstar ákvarðanir um verndun og sjálfbæra nýtingu á náttúru landsins. Ávarpið má lesa á vef umhverfisráðuneytisins.

Jón Gunnar Ottósson forstjóri flutti skýrslu um árið 2011 þar sem hann greindi meðal annars frá helstu verkefnum og viðburðum ársins á fyrsta starfsári stofnunarinnar í nýjum heimkynnum í Urriðaholti og verkefnum sem fram undan eru. Þá flutti Þorsteinn Sæmundsson, formaður samtaka um náttúrustofur, ávarp og fjallaði um stöðu náttúrustofa.

Á ársfundinum var heiðursviðurkenning stofnunarinnar veitt í þriðja sinn. Það var dr. Agnar Ingólfsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, sem hlaut hana fyrir ómetanlegt framlag til fugla- og fjörurannsókna. Agnar hóf rannsóknir á fuglum á fermingaraldri og vann á skólaárum sínum á Náttúrugripasafninu undir handleiðslu dr. Finns Guðmundssonar. Agnar var aðeins 18 ára þegar hann, ásamt Arnþóri Garðarssyni, skrifaði grein um fuglalíf á Seltjarnarnesi sem birtist í Náttúrufræðingnum 1955. Allt síðan þá hefur Agnar sett sterkan svip á náttúrufræðirannsóknir og kennslu hér á landi og hann hefur unnið mikið frumkvöðlastarf í rannsóknum á fjörudýrum og vistfræði þeirra. Heiðursviðurkenningin er útskorinn hrafn eftir Ragnhildi Magnúsdóttur bónda í Gýgjarhólskoti í Biskupstundum, betur þekkt sem Ranka í Kotinu.

Í fræðilegri dagskrá fundarins voru flutt erindi um nokkur verkefni sem unnið hefur verið að á stofnuninni. Kristján Jónasson jarðfræðingur sagði frá tveimur steindategundum sem öðluðust viðurkenningu sem nýjar heimssteindir árið 2011. Önnur þeirra heitir jakobssonít til heiðurs Sveini P. Jakobssyni jarðfræðingi, sem starfað hefur á Náttúrufræðistofnun frá árinu 1969, en hann er frumkvöðull rannsókna á eldfjallaútfellingum á Íslandi. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur fjallaði um sveppi sem lifa á öðrum sveppum; Guðmundur A. Guðmundsson dýravistfræðingur greindi frá vetrarfuglatalningum sem hafa nú farið fram árlega í 60 ár, og eru ein lengsta samfellda vöktun sem stunduð hefur verið hér á landi og sú sem tekur til flestra fuglategunda; Kristinn P. Magnússon sameindaerfðafræðingur og Starri Heiðmarsson fléttufræðingur fjölluðu um strikamerkingar á íslenskum lífverum; Sigmundur Einarsson jarðfræðingur fjallaði um jarðminjar; Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur sagði frá fundi steingerðs hvalbeins á Tjörnesi og Guðmundur Guðmundsson flokkunarfræðingur fjallaði um náttúrugripi.

Í ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2011 er fjallað ýmis verkefni sem unnið hefur verið að á stofnuninni.