Hrafnaþing: Um hvítabirni og komur þeirra til Íslands

Í erindinu verður fjallað um hvítabirni og komur þeirra til Íslands. Greint verður frá niðurstöðum krufninga á fjórum dýrum sem synt hafa hingað til lands á undanförnum fjórum árum. Fimmta dýrið til umfjöllunar er björn sem aflífaður var við hafísjaðarinn norður af landinu í sumarbyrjun 1993. Rannsóknirnar hafa meðal annars beinst að athugunum á kynþroska, ásigkomulagi og aldri. Þá hefur leit verið gerð að sníkjudýrum og fannst tríkínan Trichinella nativa í vefjum tveggja bjarnanna. Uppruni fæðuleifa í meltingarvegi var einnig greindur. Sýni hafa verið tekin úr dýrunum fyrir erlenda samverkamenn, til dæmis til mælinga á eiturefnum og til að kanna skyldleika hvítabjarna innan Austur-Grænlandsstofnsins sem og tengsl við aðliggjandi stofna. Að endingu eru nefndar mögulegar ástæður þess að hvítabirnir yfirgefa náttúruleg heimkynni sín við Austur Grænland og leggja í ferðalög sem ávallt hafa reynst vera feigðarflan þegar stefnan var tekin á Ísland.

Erindið verður flutt í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ, í Krummasölum á 3. hæð kl. 15:15–16:00.

Hrafnaþing er opið öllum. Verið velkomin!

Dagskrá Hrafnaþings veturinn 2011–2012

Hægt er að hlusta á erindi sem flutt eru á Hrafnaþingi á rás Náttúrufræðistofnunar á samfélagsmiðlinum Youtube.