Ljúfir vorboðar snemma á ferð

13.04.2012

Til þessa hefur mátt stilla dagatalið eftir húshumlunum á 19. apríl. Þær hafa brugðist því viðmiði þetta vorið. Drottningar tóku að skríða úr vetrarhýði í lok mars og töluvert varð við þær vart fyrstu dagana í apríl. Rauðhumlan nýja hefur einnig látið á sér kræla og kann það að vera vísbending um að hún verði meira áberandi í ár en áður.

Rauðhumla, svart litarafbrigði, frá Dyngjuvegi í Reykjavík 10. apríl 2012. Ljósm. Erling Ólafsson.

Það er alvanalegt að einstaka humludrottning (Bombus lucorum) þjófstarti á vorin og fari að kanna aðstæður fyrr en aðrar. Ef farið er of snemma á stjá er ekki tryggt að nokkra næringu sé að finna. Er þá vísast að skríða aftur í skjól og bíða betri tíma með blóm í haga. Það væsir þó ekki um þær árrisulu að þessu sinni því selja og viðja eru þegar farnar að blómstra en fyrstu næringuna fá humlur einmitt úr víðireklum sem gefa af sér bæði frjókorn og blómasafa. Hins vegar má reikna með að húshumludrottningum fjölgi ekki til muna fyrr en á tilsettum tíma um 20. apríl. Húshumla á pödduvefnum.

Rauðhumla (Bombus hypnorum) er landnemi sem varð fyrst vart hér á allra síðustu árum. Lítið er því enn um það vitað hvernig hún kemur til með að laga sig að gangverki náttúrunnar hér á Fróni. Til þessa hafa fyrstu drottningar fundist um 10. maí. Nú ber svo við að Náttúrufræðistofnun bárust tvær rauðhumludrottningar úr Reykjavík sem komu inn í hús í sitthvorum borgarhlutanum 10. og 11. apríl, þ.e. mánuði fyrr en áður. Það vekur einnig athygli að báðar eru þær af svörtu litarafbrigði sem er mun minna af hér en því venjulega ryðrauða. Rauðhumla á pödduvefnum.