Samstarf við Landvernd um fræðslu á háhitasvæðum

02.04.2012

Þann 28. mars gerðu Náttúrufræðistofnun Íslands og Landvernd með sér samstarfssamning sem snýr að aukinni fræðslu um jarðhitasvæði á Íslandi. Um er að ræða verkefni  á vegum Landverndar sem hófst í byrjun árs undir heitinu „Sjálfbær ferðamennska og náttúruvernd á háhitasvæðum“. Verkefnið er til tveggja ára en er hugsað sem fyrsti hluti af langtímaverkefni um verndun jarðhitasvæða á Íslandi.

Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar staðfesta samstarfssamning um sjálfbæra ferðamennsku og náttúruvernd á háhitasvæðum.

Hérlendis er að finna stórbrotin og sérstök jarðhitasvæði með mikinn fjölbreytileika, bæði innan jarðfræði og líffræði.  Svæðin eru mjög viðkvæm fyrir átroðningi og umferð, auk þess að vera hættuleg ef ekki er farið varlega. Mikil þörf er á að auka fræðslu um jarðhitasvæði og sérstöðu þeirra í íslenskri náttúru og að tryggja öryggi ferðamanna.  Þá er mikilvægt að vernda þessar einstöku auðlindir okkar til framtíðar.

Markmið jarðhitaverkefnis Landverndar er að vernda viðkvæma náttúru jarðhitasvæða og renna sterkari stoðum undir sjálfbæra ferðamennsku á slíkum svæðum. Verkefnið gengur út á að auka fræðslu um jarðhitasvæði og verndargildi þeirra, auka náttúruupplifun ferðamanna og veita upplýsingar um aðgengi og umgengni  til að auka öryggi þeirra á jarðhitasvæðum landsins.

Í samstarfsverkefninu mun Náttúrufræðistofnun Íslands leggja til upplýsingar og fræðsluefni, auk þess sem sérfræðingar stofnunarinnar taka að sér leiðsögn í ferðum Landverndar um jarðhitasvæði og flytja erindi í tengslum við verkefnið.  Verkefnið er mikilvægt þar sem þörf er á aukinni fræðslu um jarðhitasvæði á Íslandi og því fagnar stofnunin þessu samstarfi við Landvernd.