Lúpína leggur undir sig land við Húsavík

Unnið hefur verið ötullega að uppgræðslu og skógrækt á svæðinu síðan það var girt af og friðað fyrir 23 árum. Lúpína var fyrst gróðursett við Húsavík árið 1966 í skógræktargirðingu við Botnsvatn. Árið 1972 var hún einnig gróðursett í skógræktargirðingu á Skálamel ofan bæjarins. Á árunum 1993-2000 var síðan hafin umfangsmikil sáning lúpínu í mela og skriður. Sáningarnar báru góðan árangur og myndaði lúpínan þéttar breiður sem hafa farið stækkandi ár frá ári með sjálfsáningu. Sumarið 2011 var heildarútbreiðsla lúpínu við Húsavík orðin rúmlega 4 km2. Útlit er fyrir að lúpína loki melum á svæðinu innan 30 ára en jafnframt að hún leggi þar undir sig allt mólendi.

Kort voru unnin á myndkort frá Loftmyndum ehf. og fólust annars vegar í teikningu gróðurkorts eftir vettvangsgögnum Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins frá 1977 og hinsvegar kortlagningu á útbreiðslu lúpínu út frá loftmyndum sem teknar voru 1998 og 2007. Auk þess var lúpína greind og kortlögð með fjarkönnun á gervitunglamyndum frá árunum 2004 og 2011. Kortlagningin frá 1977 sýnir útbreiðslu mela og mismunandi gróðurlenda við Húsavík áður en lúpína tók að breiðast þar út að marki. Gróðurkort sem unnin voru á loftmyndir frá 1988 og 2007 sýna síðan breytingar sem verða á útbreiðslu gróðurlenda frá 1977 og hvers konar land lúpína hefur lagt undir sig.

Gróðurkortið frá árinu 1977 sýnir að melar og annað lítt gróið land var þá 5,3 km2 að flatarmáli eða tæpur fjórðungur afgirta svæðisins. Mólendi var hins vegar ríkjandi og var heildarflatarmál þess 10,6 km2. Af mólendinu var lyngmói 7,3 km2 en fjalldrapamói 3,3 km2. Af öðrum gróður- og landgerðum var gras- og blómlendi 1,3 km2, votlendi 0,6 km2, vötn 0,9 km2, ræktað land 2,5 km2 og byggð 1,5 km2. Heildarflatarmál lúpínubreiða var þá aðeins 0,003 km2 eða 0,3 ha. Árið 1998 hafði flatarmál lúpínu hins vegar aukist í 0,7 km2 og 2,8 km2 árið 2007 samkvæmt gróðurkortum fyrir þessi ár.

Fyrstu tvo áratugina, 1977-1998, voru melar á 73% þess lands sem lúpínan breiddist um en mólendi 13%. Seinna tímabilið, 1998-2007, voru melar hins vegar 57% en mólendi 27% lands sem lúpína fór yfir. Af mólendi eru það einkum lyngmói og fjalldrapamói sem lúpínan hefur lagt undir sig en ríkjandi tegundir í þeim eru krækilyng, bláberjalyng, aðalbláberjalyng og fjalldrapi.

Greining á gervitunglamyndum frá 2004 og 2011 gaf áþekkar niðurstöður hvað varðar útbreiðslu lúpínu. Líklegt er að lúpína sé þar eitthvað vanmetin þar sem erfitt var að aðgreina ungar, gisnar lúpínubreiður frá mólendi. Samkvæmt greiningunni var flatarmál lúpínubreiða 0,9 km2 árið 2004 og 4,0 km2 árið 2011.

Þegar þessar niðurstöður frá 1977-2011 eru dregnar saman fæst mynd af vexti lúpínu við Húsavík. Hún er kunnugleg og dæmigerð fyrir vöxt lífvera í nýjum heimkynnum þar sem útbreiðsluskilyrði eru góð og takmarkanir litlar. Farið er hægt af stað í fyrstu en síðan hefst ör vöxtur sem heldur áfram þar til einhverjum takmörkum er náð. Við Húsavík eru vaxtarskilyrði fyrir lúpínu mjög góð á melum og í mólendi og verður ekki annað séð en að hún muni leggja allt það land undir sig á næstu tveimur til þremur áratugum. Við kortlagninguna sáust ekki greinileg merki um að lúpína væri tekin að hörfa í elstu breiðunum á Húsavík en líklegt er að að því komi.

Það var Sigríður G. Björgvinsdóttir sem vann gróðurkort af Húsavíkurlandi og rakti breytingar á útbreiðslu lúpínu eftir loftmyndum. Niðurstöðurnar birtust í B.S.-ritgerð hennar í landfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinendur voru þau Ingibjörg Jónsdóttir, Borgþór Magnússon og Guðmundur Guðjónsson. Ritgerðin er aðgengileg á Skemmunni, rafrænu gagnasafni háskólanna. Greining lúpínu á gervitunglamyndum var unnin af Sigmari Metúsalemssyni á Náttúrufræðistofnun Íslands.