Arnarstofninn stækkar en varpárangur 2012 er með slakasta móti

27.07.2012
Örn
Mynd: Kristinn Haukur Skarphéðinsson
Rjómagult höfuð og hvítt stél eru einkenni fullorðinna arna.

Arnarstofninn hefur vaxið eftir stöðnun frá 2005 og telur nú um 69 pör. Arnarvarpið 2012 var hins vegar með slakasta móti. Vitað er um 21 par með 28 unga sem verða fleygir um miðjan ágúst. Varp misfórst hins vegar hjá meirihluta þeirra 45 arnarpara sem urpu í vor. Væntanlega hefur kuldakastið í fyrrihluta maí átt mestan þátt í því. 

Ernir verpa snemma eða um miðjan apríl og eru því viðkvæmir fyrir vorhretum og eins truflunum af mannavöldum sem því miður þekkist enn á vissum svæðum. Sæferðir, eitt helsta ferðaþjónustufyrirtækið við Breiðafjörð, gengur þar á undan með slæmu fordæmi  og hefur siglt ólöglega að arnarhreiðrum og truflað fuglana á viðkvæmum tíma snemma vors. Þá hafa óprúttnir aðilar skemmt arnarhreiður og komið upp hræðum og öðrum búnaði til að hindra arnarvarp.

Arnarvarpið 2012 gekk ágætlega við Faxaflóa en afar illa við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Enginn ungi komst upp við norðanverðan fjörðinn og aðeins einn ungi er að verða fleygur um þessar mundir á Vestfjörðum. Þetta er annað árið í röð sem arnarvarp gengur illa. Til lengri tíma litið eru þó góðar horfur með arnarstofninn eftir tiltölulega góða viðkomu undanfarin tíu ár. Stofninn er í vexti og  nokkur pör hafa helgað sér óðul á nýjum stöðum eða tekið sér bólfestu á fornum setrum.

 

Arnarungar, 7-8 vikna gamlir
Mynd: Kristinn Haukur Skarphéðinsson

Þessir arnarungar eru 7–8 vikna gamlir og verða fleygir að 2–3 viknum liðnum. Ungir ernir eru dökkleitir en lýsast smám saman uns þeir ná kynþroska aldri, 5–6 ára gamlir.

Arnarstofninn 1870-2012

Örnum fækkaði hratt á seinni hluta 19. aldar vegna ofsókna og eiturútburðar og hélt sú þróun áfram eftir að fuglarnir voru alfriðaðir 1914. Stofninn tók að rétta úr kútnum eftir að bannað var að bera út eitur fyrir refi árið 1964 og hefur ríflega þrefalda

Arnarvarp 1994-2012

Stofninn jókst jafnt og þétt fram til 2005 en breyttist síðan lítið til 2012 er nokkur ný pör bættust við (svört lína). Aðeins hluti óðalspara verpa á hverju ári (blá lína). Undanfarin ár hafa yfirleitt ríflega 30 arnarungar komist á legg (rauð lína) og 2

Varpárangur arna 1994-2012

Hátt hlutfall geldpara einkennir íslenska arnarstofninn og þegar best lætur verpa aðeins 70–80% fuglanna (svört lína). Viðkoma arnarstofnsins hefur verið tiltölulega stöðug mörg undanfarin ár eða 0,4–0,6 ungi/par (blá lína) og helst í hendur við hlutfall

Fuglamerki á erni
Mynd: Kristinn Haukur Skarphéðinsson

Ernir hafa verið litmerktir frá 2004 og er hægt að greina slíka einstaklinga á allt að 100 m færi . Hér sést á klær össu sem merkt var sem ungi í hreiðri árið 2005. Svart litmerki á vinstra fæti er auðkenni unga frá því ári og kódinn (Y) 717 er einstaklin

Upplýsingar um ferðir og afdrif arna hafa margfaldast eftir að farið var að litmerkja ungana árið 2004. Nú er til dæmis þekkt að ungir fuglar af öllu varpsvæði arnarins fara á síld í fjörðunum á norðanverðu Snæfellsnesi á útmánuðum. Eins er nákvæmlega vitað hvenær sumir ernir helga sér óðul, hefja varp og koma upp ungum og  hversu langt þeir flytja sig frá heimahögum. Yngsti örninn sem komið hefur upp ungum var fimm ára karlfugl sem varp um 12 km frá æskuóðalinu. Sá fugl (assa) sem lengst hefur farið fannst nú í sumar með hreiður tæpa 100 km frá æskuóðalinu. Systir hennar frá sama ári (2005) átti eldra met (87 km). Þær stöllur eru um þessar mundir að koma samtals þremur ungum á legg.

Merkingar á arnarungum 1963-2012

Frá og með 1963 er talið að 925 arnarungar hafi komist á legg hér á landi og voru 510 þeirra merktir eða 55%. Tekist hefur að merkja nær alla ungana síðastliðin tíu ár. Alls hafa 529 ernir verið merktir hér á landi frá 1939 og hafa þetta aðallega verið un

Upplýsingar um einstaka erni út frá auðkenni

Auðkennismerkingar hafa stóraukið upplýsingar um ferðir arna, afkomu og hvar og hvenær þeir hefja varp. Hér er yfirlit um hvenær þekktir einstaklingar hófu ábúð á óðulum, hversu langt þeir fóru frá æskuóðali sínu og hvernig þeim hefur vegnað í varpi. Karl

Rannsóknir og ítarleg vöktun á arnarstofninum byggist á samvinnu Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofanna í Stykkishólmi, Bolungarvík og Sandgerði, en ekki síst á óeigingjörnu framlagi áhugamanna. Finnur Logi Jóhannssonar hefur m.a. borið hitann og þungann af vöktun stofnsins úr lofti og Hallgrímur Gunnarsson hefur haldið utan um arnarstarfið við Faxaflóa.