Samgöngustefna Náttúrufræðistofnunar Íslands

11.09.2012

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur mótað sér samgöngustefnu en markmið hennar er að stuðla að því að starfsmenn noti vistvænan og hagkvæman ferðamáta til og frá vinnu og á vinnutíma.

Starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands hjólar frá vinnustað sínum í Urriðaholti.

Í tengslum við samgöngustefnuna verða gerðir samgöngusamningar við þá starfsmenn sem ætla sér að nota vistvænan samgöngumáta til að komast í og úr vinnu. Samkvæmt samningnum mun Náttúrufræðistofnun kaupa strætisvagnakort fyrir starfsfólk sem að jafnaði notar almenningssamgöngur og komið verður til móts við þá sem hjóla eða ganga til og frá vinnu með þátttöku í útlögðum kostnaði, til dæmis vegna hlífðarfatnaðar.

Í samgöngustefnunni er einnig lögð áhersla á að notaður sé vistvænn ferðamáti í vinnu, svo sem vegna funda utan vinnustaðar.

Samgöngustefna Náttúrufræðistofnunar Íslands er í samræmi við samgöngustefnu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.