Er
sjödeplan að nema land?


Sjödepla, Coccinella septempunctata, fundin í Hafnarfirði 14. október 2012. Ljósm. Erling Ólafsson.

Sjödepla, Coccinella septempunctata, stundum kölluð maríubjalla eða maríuhæna, er hin dæmigerða ímynd maríubjallna, rauð með svörtum doppum, lífleg og vel þokkuð. Hefur m.a. þótt sóma sér vel sem myndefni á jólakortum hjá nágrannaþjóðum. Af maríubjöllum eru margar tegundir af þessari dæmigerðu gerð, þ.e. rauðar með svörtum doppum, og má oft aðgreina þær með því einu að telja doppurnar. Aðeins ein slík hefur verið landlæg hér til þessa. Það er flikrudeplan, Coccinella undecimpunctata, sem kynnt er á pödduvef Náttúrufræðistofnunar.

Sjödepla hefur verið árviss gestur hér á landi. Því hefur hana ekki skort á möguleika á að berast hingað. Samt hefur sjödeplan ekki náð að festa sig í sessi. Ríkjandi veðurfari, til skamms tíma, hefur væntanlega verið um að kenna. En eins og alkunnugt er hefur hlýnunar gætt upp á síðkastið og ýmsir nýliðar gert vart við sig í smádýrafánunni því samfara, tegundir sem sumar hverjar eiga sér langa sögu sem slæðingar með varningi til landsins. Sögu sjödeplunnar verður einmitt þannig lýst, það hefur til þessa yfirleitt mátt tengja fundin eintök við innflutning á varningi, t.d. grænmeti, ávöxtum, kryddvörum, jólatrján, jólagreinum o.s.frv.

Í ár hafa Náttúrufræðistofnun Íslands borist þrjú eintök þessarar tegundar, sem öll fundust í húsagörðum á höfuðborgarsvæðinu og ekkert benti til þess að þau hefðu tengst innkaupum á matföngum. Það fyrsta fannst  3. maí skríðandi á sólpalli íbúðarhúss við Kringluna, það næsta 17. júlí við Ásgarð, einnig á sólpalli, og hið síðasta 14. október á jarðlægum svölum við Hörgsholt í Hafnarfirði. Þessi tilvik gætu sannarlega gefið til kynna að sjödeplan sé mætt til leiks. Það verður því fróðlegt að fylgjast með framvindunni á komandi árum.

Ýmsir óæskilegir nýliðar hafa skotið hér upp kollum undanfarin misseri og sumir hverjir ratað í fréttatíma fjölmiðlanna nokkuð reglubundið. Vel er fylgst með þeim, meira af áhyggjum en áhuga á fjölbreytileika lífsins. Sjödeplan verður seint talin til meinsemda þó hún sé mikið átvagl. Hún leggur sér nefnilega einvörðungu til munns blaðlýs sem garðræktendur koma seint til með að sakna af plöntum sínum. Það má fræðast nánar um sjödeplu á pödduvef Náttúrufræðistofnunar.