Flokkun vistgerða og kortlagning búsvæða dýra og plantna

05.10.2012

Náttúrufræðistofnun Íslands  annast framkvæmd meginhluta verkefnisins Natura Ísland þar sem aflað verður nauðsynlegra gagna um náttúru landsins með vettvangsvinnu og úrvinnslu gagna. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu með svokölluðum IPA styrk.


Við rannsóknir á vistgerðum þarf að kanna margar gerðir lands. Hér er unnið við mælingar í fjalldrapamóa á Víðidalstunguheiði. ©SHM

Árið 2010 hófst vinna undir forgöngu umhverfisráðuneytisins í samvinnu við stofnanir þess, utanríkisráðuneytið og framkvæmdastjórn ESB um að móta verkefni sem gætu hlotið styrk vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Um er að ræða svokallaða IPA-styrki (Instrument for Pre-Accession Assistance). Eitt verkefnanna sem ákveðið var að leggja fram var til að undirbúa framkvæmd vistgerða- og fuglastilskipunar sambandsins hér á landi (preparation for implementing the Habitats and Birds Directives).

Árið 2011 sótti Náttúrufræðistofnun Íslands um styrk til verkefnisins og var hann veittur stofnuninni í lok júní 2012. Bæði Umhverfistofnun og Landmælingar Íslands taka þátt í verkefninu. Gert er ráð fyrir að heildarumfang þess verði 4,4 milljónir evra og að styrkurinn nemi 3,6 milljónum evra.

Umsóknin byggðist m.a. á greiningu Náttúrufræðistofnunar á því hvaða vísindalegar skyldur landið þyrfti að uppfylla við söfnun, greiningu og flokkun náttúrufarsgagna ef Ísland gerðist aðildarríki að ESB. Greiningin leiddi í ljós að helstu verkefni Náttúrufræðistofnunar myndu fyrst og fremst tengjast innleiðingu tveggja tilskipana, þ.e. vistgerðatilskipuninni (Habitats Directive, Council Directive 92/43/EEC of 21 May 1992 on the conservation of natural habitats and of wild fauna and flora) og fuglatilskipuninni (Birds Directive, Directive 2009/147/EC of the European Parliament and of the Council of 30 November 2009 on the conservation of wild birds). Þessar tvær tilskipanir tilheyra ekki EES samningi Íslands við ESB og eru því hluti af samningaferli Íslands vegna aðildarumsóknar landsins að bandalaginu.

Framkvæmd

Gróður rannsakaður í skriðu sunnan í Grímsstaðamúla á Mýrum. Í baksýn er Hraundalshraun og Svarfhólsmúli. ©SHM

Náttúrufræðistofnun Íslands mun annast framkvæmd meginhluta verkefnisins, sem hefur fengið heitið Natura Ísland, þ.e. afla nauðsynlegra gagna um náttúru landsins með vettvangsvinnu og úrvinnslu gagna. Helstu þættir verkefnisis eru:

  • Að undirbúa og annast flokkun vistgerða á öllu landinu.
  • Að afla nauðsynlegra gagna um útbreiðslu og stofnstærðir dýra og plantna, einkum fugla og kortleggja lykilsvæði þeirra.
  • Að gera vistgerðarkort sem m.a. verða byggð á heimildasöfnun, vettvangsvinnu og fjarkönnunargögnum.
  • Að meta verndargildi og verndarþörf vistgerða og tegunda.
  • Að leggja fram tillögu til umhverfis- og auðlindaráðherra að lista yfir hugsanleg verndarsvæði (SPA's=búsvæði fugla og SCI's=vistgerðir sem vert er að vernda) sem geta fallið að neti verndarsvæða í Evrópu og bera heitið NATURA 2000.  

Samkvæmt samningnum á Náttúrufræðistofnun að byggja upp gagnagrunna fyrir verkefnið, m.a. fyrir nauðsynleg gögn og upplýsingar um náttúrufar hugsanlegra verndarsvæða. Vert er að benda á að svæðin eru eingöngu tilnefnd á grundvelli vísindalegra niðurstaðna um mikilvægi þeirra. Gert er ráð fyrir að gerðir verði  verksamningar við einstakar náttúrustofur, einkafyrirtæki og vísindamenn eftir því sem tilefni er til.

Umhverfisstofnun mun bera ábyrgð á að fræða og upplýsa almenning um verndun náttúru einstakra svæða, einkum verndun fugla og búsvæða plantna og dýra. Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun beri ábyrgð á stjórnsýslu á síðari stigum vegna hugsanlegra friðlýsinga í samráði við viðeigandi aðila en stofnunin fer í dag með stjórnun þeirra svæða sem friðuð eru á grundvelli náttúruverndarlaga.  Umhverfisstofnun mun einnig sinna ýmiss konar fræðslu vegna verkefnisins og stýra uppsetningu sameiginlegs fræðsluvefs umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands um verkefnið.

Landmælingar Íslands koma að framkvæmd verkefnisins, m.a. við við kaup á hæðarlíkani og fjölrása fjarkönnunargögnum  sem liggja til grundvallar framkvæmd verkefnisins.  Stofnuninni er einnig ætlað að taka við þessum gögnum, hýsa þau og sjá til þess að þau verði gerð aðgengileg öðrum opinberum aðilum  m.a. í því skyni að uppfylla lagalegar skuldbindingar á öðrum sviðum.

Aðferðafræði

Sums staðar á landinu er að finna mjög gróskumikið víðikjarr. Hér er verið að rannsaka gróður vestan við Þykkvabæ. ©SHM

Framangreindar tvær tilskipanir segja fyrir um ákveðnar skyldur og aðferðafræði við að velja svæði og tegundir plantna og dýra sem ástæða þykir að vernda. Aðferðafræðin byggir á skipulagðri vísindalegri söfnun gagna um vistgerðir og tegundir plantna og dýra, flokkun þeirra og greiningu. Verndargildi vistgerða og einstakra tegunda plantna og dýra er síðan metið og jafnframt lagt mat á ákjósanlega verndarstöðu þeirra á landsvísu eða Evrópuvísu (alþjóðavísu) eftir því sem við á. Niðurstöðurnar eru síðan notaðar til að leggja fram tillögu, alfarið út frá vísindalegri nálgun, um hvaða tegundir og vistgerðir þarfnast sérstakrar verndar og í hve miklum mæli. Til að afla nauðsynlegra gagna þarf því að greina vistgerðir á öllu landinu, meta þær og vinna vistgerðakort, svo hægt sé að velja svæði með samanburði. Með sama hætti þarf að greina útbreiðslu tegunda og mikilvægi einstakra búsvæða þeirra.

Rétt er að benda á að framangreind aðferðafræði sem ESB tilskipanirnar byggja á er sú sama og Ísland hefur samþykkt sem aðildarríki að Bernarsamningnum. Vinna Náttúrufræðistofnunar með þessari aðferðafræði er því eðlilegt framhald verkefnis sem hófst hjá stofnuninni 1999 við að greina vistgerðir á hálendi Íslands og mun því einnig nýtast Íslandi við að uppfylla skyldur Bernarsamningsins. Ísland hefur dregist töluvert aftur úr öðrum aðildarríkum við val á verndarsvæðum í samræmi við Emerald Network, net verndarsvæða Bernarsamningsins en þetta verkefni, Natura Ísland, mun bæta úr því hvort sem Ísland gengur í ESB eða ekki. Verkefnið mun einnig gagnast við gerð náttúruverndaráætlunar samkvæmt lögum um náttúruvernd og sem almennar upplýsingar um náttúru landsins bæði vegna náttúruverndar, skipulags sveitarfélaga og t.d. mats á umhverfisáhrifum og sem grunnur við ákvarðanatöku vegna ýmissa minni og stærri framkvæmda.

Verkefnið Natura Ísland er stærsta einstaka verkefnið sem Náttúrufræðistofnun hefur tekið að sér. Á þremur árum er gert ráð fyrir að greina, flokka og kortleggja svokallaðar forgangsvistgerðir á landi, í ferskvatni og í fjöru ásamt því að kortleggja mikilvæg búsvæði fugla. Jafnframt þarf að greina vistgerðir sem líklegt er að einungis finnist hér á landi en ekki í öðrum Evrópusambandslöndum. Forgangsvistgerðir eru vistgerðir sem taldar eru sjaldgæfar og/eða mikilvægar samkvæmt flokkunarkerfi sem notað er í vistgerðartilskipuninni og hafa hátt verndargildi.

Samstarfsaðilar

Mæling gróðurs í gróskumiklu mýrlendi í Vestur-Landeyjum. ©EÓ

Vettvangsvinna vegna verkefnisins hófst sumarið 2012. Fjölmargir starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands vinna að því en einnig hefur verið samið við Náttúrufræðistofu Kópavogs um vinnu við að flokka ár og vötn á Íslandi í vistgerðir, við Náttúrustofu Reykjaness um vinnu við kortlagningu vistgerða í fjöru og Náttúrustofa Norðausturlands hefur komið að vinnu við greiningu vistgerða á landi. Leitað hefur verðið til Skógræktar ríkisins um upplýsingar um birkiskóga en stofnunin hefur kortlagt birkiskóga landsins. Einnig hefur verið leitað til einstaklinga um ýmsar upplýsingar s.s. Agnars Ingólfssonar Háskóla Íslands og Karls Gunnarssonar Hafrannsóknarstofnuninni vegna lífríkis í fjöru, Arnþórs Garðarssonar Háskóla Íslands vegna fuglalífs og Ester Rut Unnsteinsdóttir, Melrakkasetrinu, hefur veitt upplýsingar um íslenska refastofninn.

Það er von Náttúrufræðistofnunar að verkefnið leiði til bættrar nýtingar og verndar á landi jafnt sem einstakra tegunda dýra og plantna.