Lítil mús á köldumklaka á Hrafnaþingi

15.10.2012

Ester Rut Unnsteinsdóttir, doktorsnemi í líffræði og framkvæmdastjóri Melrakkaseturs Íslands, mun á fyrsta Hrafnaþingi haustsins, miðvikudaginn 17. október, flytja erindi sitt „Lítil mús á köldum klaka: þættir úr stofnvistfræði hagamúsa á Suðvesturlandi.“

Hagamús. Ljósm. Arnar Þór Emilsson.

Hagamúsin er eina nagdýrategundin sem lifir villt í náttúru Íslands, óháð manninum. Hún er útbreidd á grónum svæðum um allt land en líklegt er að hagamýs hafi borist hingað með landnámsmönnum frá Skandinavíu og Bretlandseyjum. Hér á landi lifir hagamús á jaðri útbreiðslusvæðis síns til norðurs og vestur. Í erindinu verður í máli og myndum fjallað um rannsóknir á stofnvistfræði hagamúsa á túnum og fjöruvist á Suðvesturlandi en einnig í blönduðum skógi til samanburðar. Athuganir fóru fram í landi Brautarholts á Kjalarnesi og í blönduðu skóglendi í landi Mógilsár. Nánari upplýsingar um erindið er að finna á síðu Hrafnaþings á vef stofnunarinnar.

Erindið verður flutt í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ, í Krummasölum á 3. hæð kl. 15:15-16:00Sjá kort.

Hrafnaþing er opið öllum. Verið velkomin!

Dagskrá Hrafnaþings veturinn 2012-2013

Þeir sem ekki sjá sér fært um að mæta á Hrafnaþing eiga þess kost að hlusta á erindin á rás Náttúrufræðistofnunar á samfélagsmiðlinum Youtube.