Er Þórsmörk einkamál Skógræktarinnar?

13.11.2012

Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa miklar efasemdir um boðaðar aðgerðir Skógræktar ríkisins til að hefta útbreiðslu lúpínu í Þórsmörk. Þeir telja allar líkur á að þær muni mistakast og afleiðingin verði í raun sú að lúpína muni dreifast um víðáttumikið, skóglaust land á Þórsmerkursvæðinu. Þar muni hún leika lykilhlutverk í gróðurframvindu og breyta náttúrufari til langframa. Jafnframt muni hún með tímanum breiðast út neðan Merkurinnar og gerbreyta þar landi.

Birki breiðist út á áraurum sunnan Krossár, 16. júní 2010. Ljósm. Sigurður H. Magnússon.

Skógrækt ríkisins hyggst dreifa áburði á lúpínubreiður til að flýta fyrir hnignun þeirra og stuðla þannig að uppvexti birkiskógar og annars gróðurs. Að mati sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar er hér um mjög vanhugsaða aðgerð að ræða. Þekkt er að í lúpínubreiðum er mikil frjósemi í jarðvegi. Því er líklegt að dreifing áburðar hafi þar takmörkuð áhrif. Þessu má líkja við að bera vatn í bakkafullan lækinn. Dreifing lífræns áburðar (kjötmjöls) í stórum skömmtum hefur verið nefnd í þessu sambandi, sem er mjög hæpin aðgerð á fjölsóttu útivistarsvæði.

Þekkt er að birki nýtur góðs af lúpínu og vex vel þar sem hún breiðist inn á svæði með ungbirki. Hins vegar á birki erfitt með að nema land og vaxa upp af fræi í þéttum lúpínubreiðum og gróskumiklum gróðri sem með henni þrífst. Við þær aðstæður getur lúpína hindrað útbreiðslu birkis og framrás skógarins.

Lúpína í skriðu ofan Bása, 16. júní 2010. Ljósm. Borgþór Magnússon.

Á undanförnum árum hefur útbreiðsla birkis og annars gróðurs aukist mjög á Þórsmerkursvæðinu. Er það vegna friðunar lands fyrir beit, uppgræðsluaðgerða og hlýnunar veðurfars sem aukið hefur sjálfsáningu staðargróðurs. Landgræðsla ríkisins hefur leitt uppgræðslustarf í Þórsmörk og haft vakandi auga með svæðinu undanfarna áratugi. Að mati hennar er lúpínu ekki þörf við uppgræðslu lands og endurheimt gróðurs í Þórsmörk. Því var tekin sú ákvörðun af Landgræðslunni að reyna að spyrna við fæti og hefta útbreiðslu lúpínu þegar hún tók að búa um sig á nokkrum stöðum og gera sig líklega til að breiðast verulega út í Þórsmörk. Hafnar voru tilraunir til að eyða lúpínu með Roundup illgresiseyði á takmörkuðu svæði fyrir nokkrum árum. Þessi aðgerð fór mjög fyrir brjóstið á forsvarsmönnum Skógræktarinnar eins og þekkt er og lögðust þeir þvert gegn frekari aðgerðum, bönnuðu þær og komu í veg fyrir að þeim yrði fylgt eftir. Dæmdu þeir aðgerðirnar út af borðinu og skelltu skollaeyrum við tilraunum sem gerðar höfðu verið í Gunnarsholti með eyðingu lúpínu. Þær sýndu að hægt er að halda henni í skefjum með Roundup án þess að drepa staðargróður. Skógræktarmenn hafa eindregið lagst gegn notkun efnisins til eyðingar lúpínu. Skýtur það skökku við þar sem þeir hafa sjálfir beitt Roundup við skógrækt á gras-og mýrlendi. Þar eru dæmi um miklu stórfelldari úðun en nokkurn tíma í Þórsmörk.

Fyrirhugaðar aðgerðir Skógræktarinnar í Þórsmörk virðast í raun fyrirsláttur og dregnar fram til að rugla fólk í ríminu. Í þeim birtist sú yfirlýsta stefna Skógræktarinnar að fátt sé athugavert við dreifingu framandi tegunda innan þjóðgarða landsins og annarra svæða sem búa yfir mikilfenglegu náttúrufari. Hvergi skal hvikað frá þeirri stefnu, hér skal skapa „eins konar Alaska“.

En hvert er álit annarra aðila sem fara með mál á Þórsmerkursvæðinu, s.s. sveitarfélagsins Rangárþings eystra, Ferðafélags Íslands, Útivistar og fleiri sem láta sig Mörkina varða og njóta þar útivistar? Er náttúrufar Þórsmerkursvæðisins og þróun þess einkamál Skógræktarinnar?


Borgþór Magnússon og Sigurður H. Magnússon, 12. nóvember 2012.


Tengdar fréttir
Afleiðingar tilraunar til eyðingar lúpínu í Þórsmörk, frétt á vef Skógræktar ríkisins, 4. ágúst 2010.

Eyðing lúpínu á Þórsmerkursvæðinu, frétt á vef Landgræðslu ríkisins, 6. ágúst 2010.

Barist við lúpínu í Þórsmörk - best að efla birkiskóginn, frétt á vef Skógræktar ríkisins, 24. október 2012.