Pödduvefurinn á tímamótum – 300 tegundir

07.11.2012

Í ágúst 2009 var pödduvefur Náttúrufræðistofnunar settur á laggirnar og 80 tegundir fjölbreytilegra smádýra kynntar til leiks. Markmiðið með vefnum var og er að fræða unga sem aldna, áhugasama sem angistarfulla, um tegundir smádýra á landi og í vötnum á Íslandi. Vefurinn hefur frá upphafi notið vinsælda og er oft til hans vitnað í fjölmiðlum og þar sem fólk hittist. Hann hefur vaxið jafnt og þétt og nýir pöddupistlar bæst við nánast í viku hverri. Í dag bættist sá nýjasti við og eru þeir nú orðnir 300 talsins.

Sporðdreki sem fannst á tjaldstæðinu í Laugardal í ágúst síðastliðnum. Um hann er fjallað í pistli 300 á pödduvefnum. Ljósm. Erling Ólafsson.

Á pödduvefnum er fjallað um pöddur af ýmsu tagi, tegundir sem lifa í íslenskri náttúru og görðum landsmanna, híbýlum, vöruskemmum og gripahúsum, útlendar tegundir sem flækjast til landsins með vindum, svo og tegundir sem slæðast með varningi. Til að auðvelda aðgang voru tegundirnar frá upphafi flokkaðar í framangreinda efnisflokka eftir því hvar þær er að finna en sumar tegundir lenda óhjákvæmilega í fleiri en einum flokki. Auk þess er hægt að nálgast tegundir eftir ættbálkum þar sem þeim er raðað í stafrófsröð eftir fræðiheitum, t.d. fiðrildi, bjöllur, sniglar. Á upphafssíðu pödduvefsins er ábendingarhnappur sem vísar á nýjustu viðbætur til að létta undir með þeim sem fylgjast með reglulega.

Í pöddupistlunum er sagt frá útbreiðslu tegundanna utan lands sem innan, lífsháttum þeirra og ýmsum öðrum fróðleik sem kann að vekja áhuga. Umfjöllunin er að hluta til stöðluð en tegundir gefa vissulega misjafnt tilefni til málalenginga, t.d. liggur fyrir misgóð þekking á lífsháttum.

Textana semur Erling Ólafsson, skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun, og eru þeir byggðir á innlendum sem erlendum heimildum og ekki síst upplýsingum sem varðveittar eru í gagnagrunni stofnunarinnar. Erling vinnur markvisst að því að ljósmynda pöddurnar og koma sér upp myndabanka með pöddumyndum. Val tegunda til kynningar ræðst að miklu leyti af myndum sem fyrir liggja.

Segja má að gróskan í vefnum sé orðin þess valdandi að notendur eigi orðið erfiðara með að leita uppi smádýr sem þeir hafa hug á að skoða sérstaklega, sérstaklega ef viðkomandi hefur ekki íslenska heiti þess á takteinum. Á þessum tímamótum er því ætlunin að líta yfir farinn veg og finna leið til hentugri framsetningar pödduvefsins og gera efnið aðgengilegra fyrir notendur. Í efnisflokkunum sex er tegundum nefnilega raðað upp eftir stafrófsröð íslenskra heita óháð venslum. Sömu sögu er að segja um uppröðun innan ættbálkanna í flokkuninni. Meiningin er að gera notendum kleift að velja saman tegundir að eigin geðþótta og þrengja valið í skrefum til að nálgast það sem leitað er að. Til frekari útskýringa má nefna dæmi. Ef notandi er að skoða pistil um húshumlu hvar sem er í efnisflokkum þá skal honum gert kleift að kalla fram skyldar tegundir, þ.e. aðrar humlur, til samanburðar. Ef notandi er staddur í efnisflokknum „Pöddur í húsum“ skal hann sem dæmi geta þrengt tegundavalið í bjöllur. Þar getur hann t.d. valið veggjatítlu, sem hann hefur áhuga á að kynna sér, og kallað fram aðrar skyldar og líkar títlutegundir til samanburðar.

Á næstunni mun eitthvað hægja á birtingu nýrra pistla vegna vinnu við endurskoðun og munu þeir á meðan birtast óreglulegar en til þessa.

Þess má geta að ávallt hefur verið fjallað um skilgreindar tegundir á pödduvefnum, ekki tegundahópa. Til hátíðabrigða er nú út af því brugðið í pistli 300 þar sem hinn áhugaverði ættbálkur sporðdreka er kynntur í hnotskurn. Tilefnið er reyndar spennandi fundur sporðdreka í Reykjavík síðastliðið sumar.