Vorboði lítur dagsljósið

27.02.2013

Fyrirboðar vorsins eru af ýmsu tagi og eiga flestir sína uppáhalds vorboða. Einn þeirra tryggu er ánamaðkurinn grááni, þó ekki sé hann hafður á hvers manns vörum. Nýliðna helgi þótti honum tímabært orðið að skríða upp úr moldinni, e.t.v. einum of snemma.

Grááni, Aporrectodea caliginosa, á blautri stétt. Ljósm. Erling Ólafsson.

Hér á landi er að finna tíu tegundir ánamaðka. Grááni er einkar algengur í görðum okkar og hefur jafnan þann háttinn á að skríða upp úr moldinni í flokkum einn úrkomusaman og hlýjan vordaginn þegar útmánuðir hafa runnið sitt skeið. Þá koma herskarar þeirra upp úr blómabeðum og grasflötum og skríða út á blautar stéttar og stefna að því er virðist marklaust hver í sína áttina. Slíkan hátt hefur tegundin á að dreifa sér og nema nýjar slóðir. Hátternið er sannur vorboði enda gerist það jafnan þegar klaki hefur farið  úr jörðu og vorið tekið völdin, oft í kringum mánaðamótin mars/apríl. Margir taka eftir þessu.

Gráánar skríðandi á stéttum í Hafnarfirði að morgni dags 24. febrúar nýliðinn er óvenjulegt atvik. Hlýindin í vetur, ekki síst í þessum mánuði, gera það að verkum að jarðvegur er klakalaus og af sömu sökum eflaust mun hlýrri en norm þessa árstíma. Aukinheldur bleyttu tíðar regnskúrir vel upp í moldinni þessa helgina.  E.t.v. þurfa  ánarnir að súpa seyði af bráðlætinu. Framundan er mars, en sjaldnast hefur verið á hann treystandi.

Grááni á pödduvef Náttúrufræðistofnunar.

Vorboðar

Vorboðar í ríki náttúrunnar eru margir og sýnist sitt hverjum. Sem dæmi má nefna:

Sílamáf á ljósastaur,

hóffífil í reski,

hneggjandi hrossagauk í lofti,

heiðlóu á túnbletti,

opinn túnfífil undir húsvegg

og vellandi spóa suður í flóa.


Könnun - Hver er vorboðinn þinn í ríki náttúrunnar?


Það væri fróðlegt að fregna um það hvern þú metur helsta vorboðann þinn, lesandi góður.

Tilnefningu má senda á netfangið ni@ni.is