Sverðnykraer ný háplöntutegund í flóru Íslands

08.03.2013

Náttúrufræðistofnun Íslands vekur athygli á að ný háplöntutegund, sverðnykra, hefur bæst við flóru landsins. Starfsmenn Náttúrufræðistofu Kópavogs fundu tegundina síðastliðið sumar er þeir voru við rannsóknir í Berufjarðarvatni nærri Bjarkalundi í Reykhólahreppi. Staðfesting á tegundagreiningunni fékkst nú á dögunum.

Sverðnykra, Potamogeton compressus. Myndin er tekin neðanvatns af sverðnykrubreiðu. Blöðin eru á bilinu 10-20 cm löng. Ljósm. Náttúrufræðistofa Kópavogs.

Rannsókn Náttúrufræðistofu Kópavogs á Berufjarðarvatni er hluti af umfangsmiklu verkefni á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands sem kallast Natura Ísland. Verkhluti Náttúrufræðistofu Kópavogs snýr að vistgerðum í ferskvatni og hófust rannsóknir á síðasta ári með athugunum á gróðri í 40 vötnum á sunnan- og vestanverðu landinu. Um er að ræða fyrstu skipulegu rannsóknina á tegundasamsetningu og útbreiðslu vatnagróðurs í landinu.

Sverðnykra, Potamogeton compressus, er evrópsk tegund og hér á landi tilheyrir hún hópi rúmlega 40 vatnaplantna. Óvíst er hvenær og hvernig hún hefur borist til landsins en líklegt má telja að fræ plöntunnar hafi borist með fuglum. Ekki er heldur útilokað að plantan hafi borist til landsins fyrir atbeina mannsins, viljandi eða óviljandi. Reyndar kemur fundur tegundarinnar ekki svo mjög á óvart í ljósi þess að háplöntur í ferskvatni hafa lítið verið kannaðar með skipulegum hætti á Íslandi hingað til.

Frétt Náttúrufræðistofu Kópavogs um sverðnykru.