Fræðslubæklingur um alaskalúpínu og skógarkerfil

14.06.2013

Kominn er út bæklingur um alaskalúpínu og skógarkerfil en plönturnar eru fyrstu dæmin um ágengar, framandi plöntutegundir sem breiðast út hér á landi. Bæklingurinn er gefinn út í samvinnu Landgræðslu ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands.  Í honum er stuttlega komið inn á einkenni tegundanna, áhrif þeirra á vistkerfi landsins og mögulegar aðgerðir til að draga úr útbreiðslu þeirra.

Forsíða bæklingsins.

Sumarið 2010 skipaði umhverfiráðherra stýrihóp sem í sitja forstjórar Landgræðslu ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands ásamt fjórum starfsmönnum. Hópurinn hefur m.a. það hlutverk að taka saman upplýsingar um alaskalúpínu og skógarkerfil og setja fram tillögur um varnir og upprætingu. Bæklingurinn er liður í því starfi og verður honum m.a. dreift til sveitarfélaga og félagasamtaka.

Bæklinginn má nálgast á vefnum Ágengar tegundir – alaskalúpína og skógarkerfill. Þar má einnig finna frekari upplýsingar um áhrif alaskalúpínu og skógarkerfils á náttúru landsins og um mögulegar aðgerðir til að upprætingar. Áhersla hefur verið lögð á að hefta frekari útbreiðslu tegundanna á landinu og hafa friðlýst svæði og miðhálendið verið höfð í forgangi. Ljóst er að til þessa að stemma stigu við útbreiðslu framangreindra tegunda, þar sem þær teljast vera vágestir, þarf átak margra aðila. Því hefur verið leitað til almennings og vörslumanna lands um samvinnu. Á vefnum er ennfremur óskað eftir upplýsingum um vaxtarstaði alaskalúpínu og skógarkerfils, sérstaklega um vaxtarstaði á hálendinu og friðlýstum svæðum. Með upplýsingum sem þessum má á markvissari hátt fá yfirlit yfir útbreiðslu tegundanna en einnig marka stefnu um mögulegar aðgerðir.