Rjúpnatalningar 2013

11.06.2013

Árlegum rjúpnatalningum Náttúrufræðistofnunar Íslands er lokið. Talningasvæðin, sem í ár voru 42, eru dreifð í öllum landshlutum og ná til um 3% af grónu landi neðan 400 m hæðarlínu. Rjúpnatalningarnar eru unnar í samvinnu við náttúrustofur landsins, þjóðgarðinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarð, Fuglavernd, Skotvís og áhugamenn. Um 60 manns tóku þátt í talningunum.

Rjúpukarri á óðali. Ljósm. Ólafur K. Nielsen.

Niðurstöður talninganna í ár sýna að rjúpum hefur fjölgað um nær allt land eða um 47% á milli áranna 2012 og 2013. Þetta kemur á óvart því fækkunarskeiði sem hófst á vestanverðu landinu 2009-2010 og á norðan- og austanverðu landinu 2010-2011 er lokið, a.m.k. í bili, eftir aðeins 2-3 ár. Fyrri fækkunarskeið hafa varað í 5-7 ár og samkvæmt því hefði mátt búast við næsta lágmarki á árunum 2015-2018. Þessi óvænta fjölgun minnir mest á atburði sem urðu í kjölfar friðunaráranna 2003 og 2004. Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins og nánari greining á ástæðum fjölgunar mun liggja fyrir í ágúst í kjölfar mælinga á varpárangri rjúpna, afföllum 2012-2013 og veiði 2012.

Fréttatilkynning