Surtseyjarleiðangrar Náttúrufræðistofnunar Íslands 2013

Líffræðingar NÍ sinntu árlegum rannsóknum á gróðri og dýralífi en liðsmenn Landbúnaðarháskólans unnu að rannsóknum á jarðvegsmyndun, öndun og ljóstillífun háplantna við mismunandi aðstæður í eynni. Jarðfræðingar gerðu könnun á jarðmyndunum og rofi, jarðhiti og gasútstreymi voru mæld í sprungum og gígum og gerðar voru land- og hallamælingar í Surtsey.

Viðamiklum gögnum var safnað í þessum tveimur leiðöngrum og verður hluti þeirra kynntur á 50 ára afmælisráðstefnu Surtseyjar sem haldin verður 12. – 15. ágúst í Reykjavík, en í nóvember verður liðin hálf öld frá því að Surtseyjareldar hófust og eyja reis úr sæ.

Líffræði

Gróður

Við athuganir á gróðri eyjarinnar fundust 59 tegundir háplantna á lífi og er það einni tegund fleira en 2012. Ekki komu nýir landnemar í leitirnar.  Tegundirnar bergingspuntur og hnjáliðagras sem áður hafa fundist í eynni, en komu ekki fram sumarið 2012, voru skráðar nú. Mýradúnurt og friggjargras fundust hins vegar ekki í þessari ferð. Vísbendingar eru um að hægt hafi á landnámi háplantna í Surtsey. Frá árinu 1965 hafa fundist 70 háplöntutegundir í eynni. Sumarið 2007 voru 65 þeirra skráðar á lífi en frá þeim tíma hefur tegundum heldur farið fækkandi.

Gróður í eynni var mjög gróskumikill eftir úrkomusamt sumar og var ástand ólíkt síðastliðnu sumri, þegar langvarandi þurrkar léku gróður grátt, ekki síst á klöppum þar sem jarðvegur er lítill sem enginn. Það var fróðlegt að sjá að klappagróður hafði náð sér furðuvel eftir hremmingarnar í fyrra. Krækilyng sem hefur aukist jafnt og þétt bar þó enn umtalsverð merki eftir þurrkskemmdir. Tungljurt sem fannst fyrst fyrir tveim árum hafði nú aukist verulega. Í gamla máfavarpinu sunnantil á eynni var gríðarleg gróska í melgresisbreiðum og haugarfa sem notið hafa góðs af ríkulegri úrkomu og áburði frá fuglum.

Fuglar

Máfavarpið virtist heldur minna nú en stundum áður. Mun minna var af svartbaksungum á bjargbrúnum að þessu sinni. Sílamáfar og silfurmáfar voru færri en jafnan og má sennilega skýra það með fæðuskorti úr hafi. Niðurstöður hreiðratalninga við fasta gróðurmælireiti og talning á fullorðnum máfum á suðurhluta eyjarinnar bentu til þessarar niðurstöðu. Einn hvítmáfur hélt til með frændum sínum. Ritur höfðu orpið í suðurbjörgunum í vor, þó aðeins fáein pör eftir því sem hreiðurefni á bjargsyllum gáfu til kynna. Hvorki egg né ungar sáust. Líklegt er að hrafninn, sem kom upp einum unga í sumar, hafi rænt rituvarpið til fulls. Fýlar virtust með fleira móti og ekkert benti til þess að hrafninn hafi verið jafn aðgangsharður við þá og á síðasta sumri þegar fjölda eggja hafði verið rænt úr hreiðrum. Teistuvarp var í svipuðu horfi og fyrr en ekki sáust þess merki að lundi væri í varpi. Krafs í graslendi máfavarpsins benti þó til að lundar hafi þar þreifað fyrir sér í vor en steytt á steinum. Snjótittlingar voru með færra móti, en líklega hafa 2-3 pör verpt í eynni í sumar. Tvö pör þúfutittlinga sýndu hreiðuratferli og voru þau sennilega enn með unga í hreiðrum. Maríuerluhreiður með tveimur ungum fannst í hrauntröð í máfavarpinu. Af gestkomandi fuglum sáust æðarkollur, sendlingar og tjaldar og auk þess múrsvölungur. Ekki er vitað til að þessi suðræni flækingsfugl hafi áður sést við eyna.

Smádýr

Smádýrakönnun var hefðbundin með fallgildrum í gróðurmælireitum og kringum Pálsbæ og tjaldgildru á vísum stað í gamla máfavarpinu. Háfun gaf minni árangur en jafnan vegna lægra hitastigs á rannsóknatímanum nú en undanfarin ár. Hitastig ræður miklu um það hversu aðgengileg smádýrin verða. Af sömu ástæðu veiddi tjaldgildran minna en áður. Engin ný tegund leit dagsljósið fljótt á litið, hvað sem úrvinnsla gildruaflans kann að leiða í ljós síðar. Járnsmiður sem fannst fyrst í fyrra sýndi sig aftur og því má gera ráð fyrir að hann sé mættur til að vera.

Jarðfræði

Vatnsrof gjóskunnar í Surtsey hefur aukist verulega, eins og samanburður á myndum frá 2011 og 2013 sýna glögglega. Í sumar hefur myndast allt að 7 m breiður farvegur undir norðausturhluta Austurbunka. Fyrir ofan gjóskuna má sjá lítinn gíg og aðfærsluæð hans, en þessi gígur gaus undir lok Surtseyjargossins í janúar 1967.

Jarðmyndanir og mælingar á jarðhita

Jarðfræðiathuganir Náttúrufræðistofnunar í leiðangrinum eru liður í langtímavöktun á jarðfræðilegum breytingum í Surtsey, sem staðið hafa yfir síðan sumarið 1964. Surtsey er nú meðal þeirra eldstöðva í sjó sem best hafa verið vaktaðar á þennan hátt í heiminum. Kannaðar voru jarðmyndanir og mældur hiti í móbergssprungum. Nákvæmar hitamælingar á yfirborði eru nauðsynlegar til að fylgjast með kólnun jarðhitakerfisins sem myndaðist undir lok Surtseyjarelda. Þessi jarðhiti hefur skipt sköpum um myndun móbergs í eynni. Í leiðangrinum í ár komu í ljós nýjar hitasprungur sem hafa áður verið huldar gjósku. Í ár mældist svipaður eða örlítið lægri hiti og var í síðustu mælingum árið 2011. Mestur var hitinn í Austurbunka við vitahúsið eða 94°C.

Tekin voru móbergssýni eins og gert hefur verið reglulega síðan það fannst fyrst á yfirborði í Surtsey 1969. Þessi sýnaröð hefur gefið einstakt tækifæri til rannsókna á myndun móbergs úr gjósku. Komið hefur í ljós að myndun palagóníts og síðsteinda í móberginu er fyrst og fremst háð hitanum í berginu.

Í ferðinni var tekið mikið af ljósmyndum sem eru mikilvægar til að skrá enn frekar allar breytingar sem orðið hafa. Í ár var áberandi hversu mikið vatnsrof hafði orðið á lausri gjósku utan í bunkunum og urðu leiðangursmenn vitni að miklum vatnagangi ofan af þéttu móberginu og niður á láglendi fyrsta daginn vegna mikillar úrkomu. Þetta mikla rof auðveldaði skoðun á mörkum móbergs og óharðnaðrar gjósku, sem reyndust mjög skörp. Sýni voru tekin af lausri gjósku og harðnaðri við skilin.

Í líffræðileiðangrinum tók þátt eldfjallafræðingurinn James D. L. White, prófessor við University of Otago, Nýja Sjálandi. Hann hefur tekið að sér, í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, að rannsaka hluta borkjarnans sem tekinn var 1979 í Surtsey. Um er að ræða strúktúr þess hluta bergsins sem að öllu leyti myndaðist við gos undir sjó og óskaði hann eftir því að fá tækifæri til að rannsaka aðstæður í eynni.

Land- og hallamælingar

Á vegum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Háskólans í Gautaborg var í leiðangrinum gerðar GPS-landmælingar á þremur föstum mælipunktum eyjarinnar. Mælt var samfellt allan tímann meðan leiðangurinn stóð yfir, en með mælingunum má fá nákvæma hreyfingu eyjarinnar í þremur víddum, þ.e. A-V, N-S, og lóðrétt. Fyrstu landmælingarnar voru gerðar 1992 og því áhugavert að fá sögu breytinga. Þá var gamalt hallamælingasnið Eysteins Tryggvasonar endurmælt, þ.e. þeir punktar sem enn eru nothæfir, en sumir mælipunktarnir hafa horfið í hafið við rof eyjunnar. Með þessum mælingum má sjá hvernig eyjan sígur mismikið og verður áhugavert að sjá niðurstöðurnar sem kynntar verða á afmælisráðstefnu Surtseyjar hinn 13. ágúst nk.

Gasmælingar

Veðurstofa Íslands hóf á árinu 2011 gasmælingaverkefni sem snýr að því að kanna samsetningu og magn gasútstreymis frá virkum eldstöðvum á Íslandi. Gögnum er safnað með því að soga loft í gegnum mælitæki með síur. Unnt er að mæla ýmsar gastegundir, þar á meðal sambönd brennisteins (SO2 og H2S). Mælingar á gasi gefa mikilvægan samanburð við samsetningu eldfjallaútfellinga sem hefur áður verið könnuð í Surtsey.

Jarðfræðingur frá ÍSOR sá um að mæla gasflæði um jarðveg og gjósku í Surtsey. ÍSOR hefur mælt gasflæði (CO2) um jarðveg á allnokkrum jarðhitasvæðum frá árinu 2004, einkum á Reykjanesi, Þeistareykjum, í Hengli og Kröflu. Einnig voru gerðar mælingar á Eldfelli 2005 og 2006. Þá hefur ÍSOR verið í samstarfi við Veðurstofu Íslands um mælingar á gasflæði í Heklu síðastliðið ár.

Slíkar mælingar hafa ekki verið gerðar áður í Surtsey og áhugavert að sjá hvort og þá hversu mikið gas er á ferðinni 50 árum eftir að gos hófst.

Leiðangursmenn

Í leiðangri líffræðinga voru þeir Borgþór Magnússon (leiðangursstjóri) og Erling Ólafsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands; Bjarni Diðrik Sigurðsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands og samstarfsmenn hans og stúdentar þau Niki Leblans, Pieter Roefs og Rafaele Thuys frá Háskólanum í Antwerpen, Belgíu og Rien Aerts frá Háskólanum í Amsterdam; James White jarðfræðingur frá Otaga háskólanum á Nýja Sjálandi og Chris Linder vísindaljósmyndari frá Bandaríkjunum.

Í leiðangri jarðfræðinga voru þau Lovísa Ásbjörnsdóttir (leiðangursstjóri) og Kristján Jónasson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Ásta Rut Hjartardóttir frá Jarðvísindastofnun HÍ, Erik Sturkell frá Háskólanum í Gautaborg, Baldur Bergsson frá Veðurstofu Íslands, Auður Agla Óladóttir frá ISOR og Hallgrímur Jónasson formaður Surtseyjarfélagsins sem kannaði ástand mannvirkja Surtseyjarfélagsins og aðstoðaði við landmælingar.

Þórdís Vilhelmína Bragadóttir umsjónarmaður Surtseyjarfriðlands og starfsmaður Umhverfisstofnunar var með í báðum leiðöngrunum.