Gjaldfrjáls landupplýsingagögn á vefnum

06.12.2013
Berggrunnskort 1:600000 800x555
Berggrunnskort af Íslandi

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur í samstarfi við Landmælingar Íslands opnað fyrir niðurhalsþjónustu á gjaldfrjálsum rafrænum kortum og landupplýsingum stofnunarinnar. Til að byrja með er hægt að nálgast tvö gagnasett um jarðfræði Íslands, berggrunnskort og höggunarkort, í mælikvarða 1:600.000. Fljótlega mun gróðurkort af Íslandi, í mælikvarða 1:500.000, bætast í þjónustuna.

Landupplýsingagögn um náttúrufar landsins eru mikilvæg við úrvinnslu ýmissa verkefna hjá stofnunum, fyrirtækjum og almenningi. Til þess að þau nýtist sem best þarf að vera gott aðgengi að þeim og hefur veraldarvefurinn reynst vel í að miðla gögnum. Í janúar opnuðu Landmælingar Íslands niðurhalsþjónustu fyrir landupplýsingagögn sín sem hefur verið vel tekið af notendum. Í kjölfar þess hefur Náttúrufræðistofnun fundið fyrir auknum fyrirspurnum og áhuga á landupplýsingagögnum um náttúrufar.

Landupplýsingagögn Náttúrufræðistofnunar eru á Geodatabase-formi og sem þekjur (shp-skrár). Þau fylgja staðlinum ÍST 120 – Skráning og flokkun landupplýsingar – Uppbygging fitjuskráa. Þeir sem hafa áhuga á að nálgast gögnin þurfa að hafa í huga að vera með GIS hugbúnað settan upp í tölvunni hjá sér.

Eins og margar aðrar ríkisstofnanir hefur Náttúrufræðistofnun Íslands tekið upp nýju skilmálana er varða afnot af rafrænum gögnum. Skilmálarnir eru byggðir á opnu leyfi frá Bretlandi (e. Open government Licence) og hafa þeir verið lagaðir að gögnum stofnunarinnar. Íslenska útgáfan er afrakstur vinnu sem nefnd á vegum fjármálaráðherra stóð fyrir snemma árs 2013 og veita nýju skilmálarnir meira svigrúm fyrir notendur gagnanna en áður.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um jarðfræðikortin á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands eða í landupplýsingagátt Landmælinga Íslands.

Gagnasettin tvö um jarðfræði Íslands má nálgast á niðurhalsþjónustu Landmælinga.

Landupplýsingaþekja með eldstöðvakerfi landsins og tilheyrandi upplýsingatafla
Mynd: NÍ Anette Theresia Meier

Mynd af landupplýsingaþekju sem inniheldur eldstöðvakerfi landsins og tilheyrandi upplýsingatöflu. Kortgrunnar (hæðarlínur, vatnafar ofl.) og útlit (litir, tákn ofl.) fylgja ekki gögnunum og einungis er hægt að opna þekjurnar í GIS hugbúnaði.