Ársfundur Náttúrufræðistofnunar Íslands 2014

Á ársfundinum flutti Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra ávarp. Þar ræddi hann meðal annars um framkvæmdaáætlun sem nú er í undirbúningi í umhverfis- og auðlindaráðuneyti um úrbætur á ferðamannastöðum og hvernig starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands og aðgangur að áreiðanlegum upplýsingum um náttúru landsins skipti máli við skipulagningu landnýtingar, svo sem ferðamennsku. Ráðherra kom einnig inn á verkefnið Natura Ísland, sem að mati umhverfis- og auðlindaráðuneytis er eitt af mikilvægustu verkefnum sem stofnunin vinnur að um þessar mundir. Verkefnið hefur verið styrkt af Evrópusambandinu síðan 2012 en nú hefur verið ákveðið að hætta fjármögnun þess þegar einungis eitt ár er eftir. Fram kom að nú sé verið að kanna möguleika á að ljúka verkefninu eins og upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá kom ráðherra inn á mikilvægi samstarfs Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa í landinu, tímamót hjá Veiðikortasjóði, samráð vegna veiða á villtum dýrum, endurskoðun laga um náttúruvernd o.fl.

Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands flutti skýrslu ársins 2013 þar sem hann greindi meðal annars frá fjárhagsstöðu stofnunarinnar og rekstrargrunni. Uppsögn Evrópusambandsins á IPA-samningi vegna Natura Ísland verkefnisins setur rekstraráætlun 2014–2015 úr skorðum því hún byggir að verulegu leyti á verkefninu. Leggja þarf áherslu á að finna leið til að ljúka verkefninu með ásættanlegum hætti því annars er hætta á að mikilvæg grunnvinna fyrir vernd og sjálfbæra nýtingu náttúru Íslands fari forgörðum og þjóðhagslegum ávinningi af verkefninu verði fórnað. Meðal annarra verkefna sem nefnd voru eru stafræn gróðurkort af miðhálendi Íslands og flokkun og kortlagningu á fjörum og brimasemi við strendur landsins. Að öðru leyti vísaði forstjóri til umfjöllunar um verkefni í ársskýrslum.

Þorkell Lindberg Þórarinsson forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands ávarp og fjallaði um samstarf náttúrustofa og Náttúrufræðistofnunar Íslands með áherslu á vöktun fuglastofna.
Í fræðilegri dagskrá fundarins greindi Trausti Baldursson frá stöðu Natura Ísland verkefnisins; Guðmundur Guðjónsson, Sigurður Kristinn Guðjohnsen og Rannveig Thoroddsen sögðu frá stafrænu gróðurkorti af miðhálendi Íslands; Starri Heiðmarsson og Pawel Wasowicz fjölluðu um vöktun háplantna og Ester Rut Unnsteinsdóttir fjallaði um tófuna, stofnstærð hennar, tjón og veiðar.

Ársskýrsla stofnunarinnar fyrir árið 2013 er yfirgripsmikil og þar er fjallað um ýmis verkefni sem unnið hefur verið að á stofnuninni.