Stafrænt gróðurkort af miðhálendi Íslands

Í erindinu verður fjallað um þann merka áfanga sem náðist í lok ársins 2013 þegar lokið var við að endurteikna og uppfæra á stafrænt form öll gróðurkortagögn af miðhálendi landsins sem aflað hefur verið frá upphafi gróðurkortagerðar á Íslandi árið 1955. Gróðurkortagerð á Íslandi í sex áratugi er ein umfangsmesta skráning sem fram hefur farið á náttúru landsins.

Gengið hefur verið frá samfelldu gróðurkorti af 87% miðhálendisins, sem þekur samtals 42.700 km² lands með jöklum. Markvisst hefur verið unnið að staffæringu gróðurkortagagnanna í rúm fjögur ár. Auk starfsmanna gróðurkortagerðar Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa þrír starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða unnið að verkefninu með stuðningi af fjárlögum, til styrktar atvinnusköpun á Vestfjörðum.

Mælikvarði kortsins miðast við mælikvarðann 1:25.000. Gróðu er flokkaður eftir ríkjandi og einkennandi tegundum plantna í 100 gróðurfélög og 14 gerðir lítt eða ógróins lands. Gróðurþekja er flokkuð í fjóra flokka.

Gögnin sem hafa orðið til við staffæringu gróðurkortagagnanna eru afar nytsamleg og gefa fjölbreytta möguleika til útreikninga og tölfræðilegs samanburðar á milli svæða. Má þar t.d. nefna samanburð á gróðurfari miðhálendisins norðan og sunnan jökla eða á milli afrétta. Einnig er nú tiltölulega auðvelt að gera úttekt á gróðurfari afmarkaðra svæða t.d. vegna friðlýsinga, mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, mats á beitarþoli eða mótstöðu gróðurs við átroðslu vegna umferðar manna og dýra.

Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ, í Krummasölum á 3. hæð kl. 15:15–16:00.

Hrafnaþing er opið öllum. Verið velkomin!