Rjúpnatalningar 2014

Rjúpnatalningar Náttúrufræðistofnunar Íslands vorið 2014 sýna fjölgun víða um  land. Samandregið fyrir öll talningasvæði var meðalfjölgun rjúpna 41% á milli áranna 2013 og 2014. Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöðu rjúpnatalninga vorið 2013 en þær sýndu að fækkunarskeið sem hófst 2009-2010  lauk  eftir aðeins tvö til þrjú ár. Þetta er óvanalegt þar sem fyrri fækkunarskeið hafa varað í 5 til 8 ár og samkvæmt því átti næsta lágmark að vera á árunum 2015 til 2018. Aukning rjúpnastofnsins 2013-2014 er mismikil eftir landshlutum og á Suðurlandi og Norðvesturlandi er kyrrstaða eða fækkun. Í sögulegu samhengi er rjúpnafjöldinn 2014 undir meðallagi. Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins og nánari greining á ástæðum fjölgunar munu liggja fyrir í ágúst í kjölfar mælinga á varpárangri rjúpna, afföllum 2013 til 2014 og veiði 2013.

Talningar gengu ágætlega í ár og voru rjúpur taldar á 41 svæði í öllum landshlutum. Alls sáust 1459 karrar sem er um 2% af áætluðum heildarfjölda karra í landinu samkvæmt stofnstærðarmati. Talningarnar voru unnar í samvinnu við náttúrustofur landsins, Þjóðgarðinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarð, Fuglavernd, Skotvís, Fuglarannsóknastöðina á Höfn og áhugamenn. Um 60 manns tóku þátt í talningunum að þessu sinni.

Sjá nánar fréttatilkynningu (pdf)