Nýjar tegundir finnast í Surtsey

Tvær nýjar plöntutegundir fundust í árlegum rannsóknaleiðangri til Surtseyjar og telst það til nokkurra tíðinda því undanfarin ár hefur dregið úr landnámi plantna í eynni. Þetta eru tegundirnar skriðsóley og heiðadúnurt sem báðar fundust í fuglabyggðum í eynni.

Líffræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands fóru í sinn árlega rannsóknaleiðangur til Surtseyjar dagana 13.–17. júlí, ásamt líffræðingum frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Með í för voru einnig starfsmenn frá Veðurstofu Íslands, Surtseyjarstofu Umhverfisstofnunar og fréttamenn frá RÚV. Leiðangurinn var skipulagður í samvinnu við Surtseyjarfélagið.

Gróður og jarðvegur

Tvær nýjar plöntutegundir fundust í eynni og telst það til nokkurra tíðinda því undanfarin ár hefur dregið úr landnámi plantna í eynni. Þetta voru tegundirnar skriðsóley og heiðadúnurt sem báðar fundust í fuglabyggðum í eynni. Sú fyrrnefnda finnst einnig í Heimaey, Elliðaey og Suðurey en hún er algeng í frjósömu ræktarlandi og görðum. Heiðadúnurt hefur hins vegar ekki fundist í Vestmannaeyjum áður. Aðeins ein planta fannst af hvorri tegund og óvíst er um framtíðarhorfur þeirra í eynni. Frá árinu 1965 hefur alls fundist 71 tegund háplantna í Surtsey en í ár voru 60 þeirra skráðar á lífi. 

Gróður var mjög gróskulegur í eynni í úrkomusömu sumri, einkanlega í máfavarpinu á suðurhluta eyjarinnar þar sem þétt graslendi með haugarfa hefur myndast svo minnir á graslendi fuglabyggða í úteyjum Vestmannaeyja. Unnið var að kortlagningu á útbreiðslu plantna í eynni og sýndi hún að miklar breytingar hafa orðið á undanförnum áratug. Einkum eru það tegundirnar holurt, melskriðnablóm og hundasúra sem breiðst hafa út á vikrum og lítt grónu hrauni.   

Mjög hefur hægt á landnámi nýrra fléttutegunda í Surtsey en fléttufunga eyjunnar er í stöðugri þróun. Athygli vakti að útbreiðsla fuglaglæðu (Xanthoria candelaria) hefur aukist mikið við setstaði fugla. Fleiri niturháðar tegundir hafa aukið útbreiðslu sína við setstaðina. Á nokkrum stöðum hafa hrúðurfléttur náð að þekja móberg, m.a.  á toppi Austurbunka og vaxa þar saman nokkrar tegundir targa (Lecanora), skorpuglæta (Candelariella coralliza) og merlutegund (Caloplaca citrina). Í graslendi eyjarinnar hefur útbreiðsla blað- og runnfléttna aukist umtalsvert og ber þar einkum á mókrókum (Cladonia furcata), kryppukrókum (Cladonia macroceras) auk engjaskófar (Peltigera canina). Á hrauni þar sem umferð máfa er mikil má finna sérstaka fléttufungu sem samanstendur af nokkrum hrúðurfléttum eins og varpstúfu (Lecania subfuscula) og fjörutörgu (Lecanora poliophaea). Útbreiðsla þessa búsvæðis hefur dregist allverulega saman sem má rekja til þess að graslendið fer stækkandi. 

Unnið var að mælingum á jarðvegsöndun og ljóstillífun í eynni og sýnum safnað af jarðvegi til efnagreiningar. Þá voru tekin sýni við víðiplöntur í föstum rannsóknareitum til að kanna myndun og þróun sveppróta í gróðri við frumframvindu.

Dýralíf

Vel hefur árað hjá fuglum í eynni, varp virðist hafa farið snemma af stað og afkoma unga verið góð. Mikið var af svartbaki, sílamáfi og silfurmáfi í varpinu á suðurhluta eyjarinnar, um 250 pör.  Fýll var í björgum og gígum og ungar skriðnir úr eggjum, teista í sjávarhömrum og lítilræði af ritu og lunda eins og undanfarin ár. Af  spörfuglum hafa hrafn, snjótittlingur, þúfutittlingur og maríuerla verpt í eynni í ár og komið upp ungum.

Smádýrum var safnað í eynni en engin ný tegund kom í leitirnar en gæti gert það eftir úrvinnslu sýna. Sérstaka athygli vöktu tvær bjöllutegundir,  en járnsmið hefur fjölgað mikið í eynni og eyjarani hefur aldrei verið jafn áberandi og nú í sumar, en þeir sáust hvarvetna skríðandi við skarfakál.

Rof

Talsverðar breytingar hafa orðið á eynni frá síðasta ári, en á austurhluta hennar voru merki um mikinn sjógang og rof. Hraunhamrar höfðu gengið inn um allmarga metra á köflum og sjór er einnig tekinn að éta sig inn í vikurbunka á norðausturhluta eyjarinnar. Norðurtanginn hefur breyst, ysti hlutinn rofnað og grjót hlaðist upp við ströndina. 

Veðurstöð

Starfsmenn Veðurstofu Íslands sinntu viðhaldi á sjálfvirkri veðurstöð sem sett var upp í Surtsey vorið 2009. Vindmælir og vefmyndavél voru lagfærð og símasamband við stöðina bætt. Er nú aftur komið lag á stöðina og sendir hún stöðugt upplýsingar um veður í eynni og ljósmyndir inn á vef Veðurstofunnar, sjá vefmyndavél og veðurathuganir.   

Leiðangursmenn

Þátttakendur í leiðangrinum voru Borgþór Magnússon (leiðangursstjóri), Erling Ólafsson, Sigurður H. Magnússon, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz og Matthías Alfreðsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Bjarni Diðrik Sigurðsson og Niki Leblans frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Håkan Wallander og Adam Bahr frá Lundarháskóla, Vilhjálmur Þorvaldsson og Ólafur Freyr Gíslason frá Veðurstofu Íslands, Gísli Einarsson og Guðmundur Bergquist frá RÚV og Þórdís Vilhelmína Bragadóttir frá Surtseyjarstofu.

Leiðangursmenn talið frá vinstri, Adam Bahr, Håkan Wallander, Bjarni D. Sigurðsson, Starri Heiðmarsson, Sigurður H. Magnússon, Ólafur F. Gíslason, Vilhjálmur Þorvaldsson, Pawel Wasowicz, Borgþór Magnússon, Matthías Alfreðsson, Niki Leblans, Þórdís V. Bragadóttir og Erling Ólafsson. Ljósm. Erling Ólafsson.