Aukið aðgengi að landupplýsingum

11.08.2014
Gróðurkort af miðhálendi Íslands 2014
Gróðurkort af miðhálendi Íslands 1:25.000.

Landupplýsingakerfi (GIS) auðvelda greiningu og flokkun gagna sem tengd eru staðsetningu á landi eða sjó. Sífellt eykst þörfin á landupplýsingagögnum um náttúru Íslands til að nota við úrvinnslu ýmissa verkefna.   Stefna Náttúrufræðistofnunar Íslands er að auka aðgengi að landupplýsingum sem unnin eru hjá stofnuninni og í gegnum vefinn er nú hægt að hala niður fjórum gagnasettum með náttúrutengdum landupplýsingum.

Landupplýsingagögn Náttúrufræðistofnunar sem nú eru aðgengileg á vefnum eru tvö yfirlitsgögn um jarðfræði Íslands, berggrunn og höggun (mælikvarða 1:600.000), yfirlit yfir gróðurfar Íslands (mælikvarði 1:500.000) og nýlega bættist við fjórði gagnapakkinn sem inniheldur landupplýsingar um gróðurfar á miðhálendi Íslands (mælikvarði 1:25.000).

Gróðurkort af miðhálendinu var kynnt í erindi á ársfundi Náttúrufræðistofnunar og á Hrafnaþingi í vor undir heitinu Stafrænt gróðurkort af miðhálendi Íslands. Miðhálendið þekur samtals 42.700 km² lands og er gróður flokkaður í 100 gróðurfélög sem tekin eru saman í gróðurlendi og gróðursamfélög. Gróður er einnig flokkaður eftir gróðurþekju og lítt eða ógróið land er flokkað eftir landgerðum. Flokkunin er aðgengileg á vefnum og nefnist Gróðurlykill – Miðhálendið (pdf).

Skráarform gagnanna er tvennskonar, þ.e. „Geodatabase“ og þekjur (shp-skrár) og er miklvægt að notaður sé hugbúnaður sem getur lesið þessar skrár (t.d. ArcGIS, QGIS, sjá einnig leiðbeiningar á vef LMÍ). Skráning landupplýsinga er samkvæmt staðlinum ÍST 120 – Skráning og flokkun landupplýsingar – Uppbygging fitjuskráa. Vakin er athygli á því að grafískt útlit (t.d. litir, tákn, skýringatexti o.fl.) fylgir ekki með gögnunum og ekki heldur grunngögn, (t.d. hæðarlínur, ár, strönd, vegir o.fl.) en þau er hægt að nálgast í niðurhalsþjónustu Landmælinga Íslands.

Frekari upplýsingar um landupplýsingagögnin eru á síðunni gróðurkort á vef Náttúrufræðistofnunar, ásamt tengingum í niðurhalsþjónustu og lýsigögn í landupplýsingagátt Landmælinga Íslands. 

Tengdar fréttir á vef NÍ:

Gjaldfrjáls landupplýsingagögn á vefnum (6.12.2013)

Stafrænt gróðurkort af miðhálendi Íslands (13.5.2014)