Geitungar komnir í leitirnar

... þeir komu í leitirnar. Bú holugeitunga fannst í garði í Hafnarfirði fyrir skemmstu og kannski voru þar síðustu móhíkanarnir! Stungið var upp á því að leyfa búinu að þroskast áfram óáreitt til að stuðla ekki að útrýmingu tegundar í umhverfi okkar. Garðeigandinn reyndist ekki fylgjandi tillögunni og var búið því fjarlægt í skjóli nætur. Í búinu var drottningin með 534 þernum sínum. Hundruð lirfa voru í uppvexti og annað eins af púpum beið þess að sleppa út nýjum þernum. Drottningahólf höfðu verið smíðuð en uppeldi nýrra drottninga ekki hafið enn. Búskapurinn hefði þurft að halda áfram fram í september til að honum lyki með nýrri kynslóð drottninga.

Ekki er vitað hvað amar að holugeitungunum, en þeir virðast ekki hafa náð sér upp eftir ansi dapurt gengi í fyrrasumar. Þá áttu þeir erfitt uppdráttar víðar en hérlendis. Fregnir bárust af óförum þeirra á okkar breiddargráðum í Svíþjóð. Þarlendir fræðimenn áttu ekki á því skýringu.

Holugeitungur fannst fyrst með bú hér á landi árið 1977 í Reykjavík. Hann náði smám saman miklu flugi og hrellti fólk með sinni einskæru ónærgætni. Gerði sér bú í húsagörðum, í holum og blómabeðum, garðskúrum, kjöllurum og á háaloftum, inni í húsveggjum og jafnvel inni í íbúðum. Hann abbaðist upp á fólk sem freistaði þess að njóta garðvistar á góðviðrisdögum með sætindi á borðum og veigar í glösum. Ófáir moldugir fingur lentu í hremmingum við að snyrta blómabeð. Geitungastungur voru nokkuð tíðar, sárar og illa þolaðar.

Algengt er að nýir landnemar nái sér vel á strik fljótlega upp úr landnámi, verði jafnvel óeðlilega áberandi og stundum skaðvaldar á gróðri í meira lagi. Oftast þróast mál þannig hægt og bítandi að landnemarnir finna sinn eðlilega sess og aðlagist betur lífríkinu sem fyrir er. Hætta að haga sér dólgslega. Einnig er þekkt að landnámstilraunir renni út í sandinn.

Alls hafa fjórar tegundir geitunga gert tilraunir til landnáms hér og hefur þeim vegnað misvel. Húsageitungur mætti til leiks á undan holugeitungi árið 1973 og náði hæstu hæðum á áratuginum fyrir aldamótin. Upp úr því tók að halla undan og fannst síðasta bú húsageitungs árið 2007. Trjágeitungur fannst fyrst 1982. Landnám hans varð farsælt um land allt og er enn engan bilbug á honum að finna. Roðageitungur kom sumarið 1986. Hann náði aldrei neinum hæðum og hefur hans ekki orðið vart nú um nokkurt árabil. Sem sagt af fjórum tegundum geitunga hafa tvær lagt upp laupana og sú þriðja kann að vera á útleið. Hins vegar er trjágeitungur líkast til kominn til að vera til langframa. Það er huggun harmi gegn að hann er friðsamastur geitunganna og ekki ómögulegt að búa með honum ágætu lífi.

Það verður spennandi að sjá hvort þetta afhroð holugeitunga verði þeim að varanlegu falli, spennandi að sjá hvað næsta sumar ber í skauti sér. Það skal líka haft í huga fleiri bú kunna að koma í leitir nú þegar líða tekur á síðsumarið og er ekki loku fyrir það skotið að einhverjir ráfandi skrattakollar eigi eftir að gera okkur grikki á næstu vikum. En það er nokkuð víst orðið að holugeitungar eru nú í sinni mestu lægð og ættu höfuðborgarbúar og nágrannar að geta notið garða sinna það sem eftir lifir sumars.