Rjúpnaveiði 2014

Umhverfisráðherra hefur ákveðið fyrirkomulag rjúpnaveiða 2014 og fallist á ráðleggingar Náttúrufræðistofnunar um ráðlagða rjúpnaveiði upp á 48.000 fugla. Sölubann á rjúpum verður áfram í gildi.

Rjúpnaveiði 2014 verður heimiluð í 12 daga og þessir dagar dreifast á fjórar helgar með eftirfarandi hætti:

·      Föstudaginn 24. október til sunnudags 26. október (3 dagar)

·      Föstudaginn 31. október til sunnudags 2. nóvember (3 dagar)

·      Föstudaginn 7. nóvember til sunnudags 9. nóvember (3 dagar)

·      Föstudaginn 14. nóvember til sunnudags 16. nóvember (3 dagar)

Áfram verður sölubann í gildi á rjúpu og rjúpnaafurðum og ákveðið svæði á Suðvesturlandi verður sömuleiðis áfram friðað fyrir veiði. Þetta er annað árið sem þetta fyrirkomulag gildir en umhverfis- og auðlindaráðherra ákvað árið 2013 að það myndi vara í a.m.k. þrjú ár. Eru veiðimenn hvattir til að veiða ekki fleiri rjúpur en hver og einn þarf auk þess sem þeir eru beðnir að gæta þess að særa ekki fugl umfram veiði.

Frá því að rjúpnaveiðar hófust að nýju árið 2005 hafa rjúpnaveiðimenn verið virkir þátttakendur í að draga úr veiðum á rjúpu í því skyni að vernda stofninn. Ljóst er að allir að þurfa að leggjast á eitt, svo hægt sé að tryggja sjálfbæra nýtingu rjúpnastofnsins.

Sjá nánar greinargerð Náttúrufræðistofnunar Íslands til umhverfisráðherra.