Nýjar greinar um Surtsey og fleiri eldeyjar

Komin eru út tvö rit með greinum um Surtsey og fleiri eldfjöll þar sem rannsóknir hafa verið stundaðar undanfarna áratugi. Greinarnar fjalla flestar um efni sem kynnt voru á 50 ára afmælisráðstefnu Surtseyjar sem haldin var í Reykjavík haustið 2013.

Kápan af 13. hefti ritsins Surtsey Research.

Annars vegar er um að ræða 13. hefti ritsins Surtsey Research sem Surtseyjarfélagið gefur út en hins vegar sérhefti af alþjóðlega vísindaritinu Biogeosciences. Ritin eru bæði gefin út rafrænt og eru þau með opnum aðgangi. Meðal höfunda eru nokkrir starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Í greinum sem fjalla um rannsóknir í Surtsey og víðar hér á landi er meðal annars greint frá landnámi mosa á eynni, framvindu gróðurs og þróun vistkerfis þar, uppsöfnun köfnunarefnis og lífrænna efna í melhólum, áhrifum sjófugla á næringarefnahringrás og jarðvegsmyndun, erfðafræði fjöruarfa, túnvinguls og krækilyngs í eynni, örverulíf í jarðvegi og djúpt í iðrum eyjarinnar, selatalningar í eynni frá 1980 og foki eldfjallaryks frá landinu á haf út í stormum. Einnig eru greinar sem fjalla um rannsóknir á eldfjöllum eða eyjunum Mount St. Helens í Bandaríkjunum, Anak Krakatau í Indónesíu, Whakaari og Rangitoto-eyjum á Nýja-Sjálandi og Róbinson Krúsó-eyju í Kyrrahafi.