Grasfrjó í lofti

Á höfuðborgarsvæðinu hafa veðurskilyrði undanfarna daga verið góð til dreifingar frjókorna því það hefur verið hlýtt, þurrt og svolítil gola. Grös eru nú farin að blómgast og komu fyrstu frjókornin í gildruna í Garðabæ þann 4. júní. Eftir það hefur þeim fjölgað og var frjótalan í 11 frjó/m3 þann 12.júní. Það eru einkum ilmreyr og háliðagras sem eru að dreifa frjókornum þessa dagana. Búast má við frjókornum frá grösum næstu vikurnar en aðalfrjótíminn er í júlí og ágúst.

Þeir sem eru haldnir grasofnæmi ættu að vera á verði, sérstaklega nálægt óslegnu grasi. Best er að slá gras áður en það blómgast því þá myndast ekki frjó. Einnig er gott að hafa í huga að þurrka ekki þvott úti þegar mest hætta er á frjókornum og sofa við lokaðan glugga.

Fari frjótölur grass yfir 10–20 frjó/m3 á einum degi má búast við að ofnæmiseinkenna verði vart en það er þó einstaklingsbundið hversu næmt fólk er.