Varhugaverðir hitakærir myglusveppir

Myglusveppir innanhúss geta valdið ofnæmiseinkennum hjá fólki, til dæmis útbrotum og einkennum í öndunarfærum. Það er hins vegar fátítt að innanhússsveppir sýki fólk, en með sýkingu er átt við að sveppurinn taki sér bólfestu í líkama manns og vaxi þar.

Í sýnum sem Náttúrufræðistofnun Íslands fékk til greiningar fyrir nokkrum árum úr gömlu húsi sem notað var sem frístundahús og orðið hafði fyrir heitavatnstjóni, sem ekki uppgötvaðist fyrr en húsið hafði staðið gufufyllt í 18 daga, sást að tvær hitakærar tegundir myglusveppa uxu þar um alla veggi. Sums staðar var um að ræða tegundina Paecilomyces variotii, sem myndar gulbrúnan vöxt, en annars staðar voru blágrænar myglur súlufruggu, Aspergillus fumigatus, stærri og meira áberandi. Á einum stað óx svartfrugga, Aspergillus niger, en lítið óx af henni í húsi þessu.

Súlufrugga, A. fumigatus, er stórhættuleg heilsu manna. Hún getur vaxið í lungum fólks sem hefur veikt ónæmiskerfi og andar að sér miklu magni af gróum hennar. Sjúkdómurinn ber heitið aspergillosis eftir ættkvíslarheiti sveppsins og getur komið fram á ýmsan hátt, til dæmis þannig að kúla úr sveppavef ásamt öðru tilfallandi efni myndast í lungum, oft kölluð sveppabolti (aspergilloma). Sveppasýking í lungum er alltaf alvarleg og full ástæða til að fara varlega þegar unnið er að hreinsun húsa sem orðið hafa fyrir heitavatnstjóni sem ekki uppgötvast innan tveggja sólarhringa. Hitinn drepur aðrar örverur en þær hitakæru og verða þær því einráðar þegar aftur verður lífvænlegt eftir heitavatnstjónið.

Í febrúar síðastliðnum fékk Náttúrufræðistofnun Íslands símtal frá manni sem hafði tekið að sér að hreinsa skemmd byggingarefni út úr húsi sem hafði orðið fyrir heitavatnstjóni þegar það stóð autt og var síðan látið þorna í mjög langan tíma. Eftir að hafa unnið við hreinsunina um tíma veiktist maðurinn og fékk það sem talið var vera slæmt astmakast. Síðar kom reyndar í ljós helmingur þindar mannsins var óstarfhæfur og annað lungað í hálfgerðum lamasessi. Maðurinn notaði ýmist lélega eða enga rykgrímu við vinnu sína.

Hér skal ekki metið hvort myglusveppir séu orsök veikinda mannsins sem um ræðir. Þó skal bent á mikilvægi þess að vera ávallt vel búinn viðeigandi persónuhlífum, eins og öndunargrímum, þegar farið er inn í húsnæði sem hefur myglað. Þegar hreyft er við mygluðu byggingarefni sem er orðið þurrt má búast við því að mikið magn sveppagróa og agna sem brotnað hafa úr sveppunum þyrlist upp í loftið. Mikilvægt er að þessar örsmáu agnir komist ekki niður í lungu. Þegar vatnstjón í húsum er af völdum heits vatns og húsnæðið hefur verið heitt og fullt af heitri gufu í nokkra daga þá ætti enginn að hætta sér inn í það nema með vandaðan öndunarbúnað.

Myglusveppir innanhúss