Vel heppnað málþing að baki

20.03.2017
Málþingið "Vistgerðir á Íslandi" 17. mars 2017
Mynd: Erling Ólafsson

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, á málþinginu „Vistgerðir á Íslandi“

Stór áfangi í kortlagningu íslenskrar náttúru var kynntur á málþingi Náttúrufræðistofnunar Íslands og umhverfis- og auðlindaráðuneytis síðastliðinn föstudag, 17. mars. Þar voru kynntar niðurstöður flokkunar lands í vistgerðir og kortasjá opnuð sem sýnir útbreiðslu þeirra á landinu. Málþingið þótti afar vel heppnað en um 220 manns sóttu þingið.

Á málþinginu voru kynntar afurðir verkefnisins Natura Ísland, sem er umfangsmesta verkefni sem stofnunin hefur ráðist í. Það fólst í að skilgreina, lýsa, flokka og kortleggja vistgerðir á þurrlendi, í fersku vatni og fjöru á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem heildarflokkun á vistgerðum landsins er lögð fram og birt kort sem sýna útbreiðslu þeirra og stærð. Niðurstöður verkefnisins eru birtar í ritinu Vistgerðir á Íslandi og á vef stofnunarinnar.

Málþingið var sett af Jóni Gunnari Ottóssyni forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og á eftir honum flutti Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra ávarp. Þar á eftir kynntu sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands einstaka hluta verkefnisins. Trausti Baldursson, forstöðumaður vistfræði- og ráðgjafardeildar greindi frá flokkun náttúru Íslands í vistgerðir, Sigurður H. Magnússon, plöntuvistfræðingur, sagði frá vistgerðum á landi, Marianne Jensdóttir Fjeld, vatnalíffræðingur, um ferskvatnsvistgerðir og Gunnhildur I. Georgsdóttir, umhverfisfræðingur, um fjöruvistgerðir. Þar á eftir kynnti Lovísa Ásbjörnsdóttir, sviðsstjóri landupplýsinga, kortavefsjá og upplýsingar um vistgerðir á vef stofnunarinnar. Að fyrirlestrum loknum voru líflegar pallborðsumræður þar sem tóku þátt Árni Bragason, landgræðslustjóri, Eydís Líndal Finnbogadóttir, starfandi forstjóri Landmælinga Íslands, Hafdís Hafliðadóttir, staðgengill forstjóra Skipulagsstofnunar, Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga og Snorri Baldursson, formaður Landverndar. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, var fundarstjóri.

Fjöldi gesta á málþinginu fór fram úr björtustu vonum en mætti um 220 manns. Einnig voru allmargir sem fylgdust með beinni útsendingu frá málþinginu á Youtube og hægt er að horfa á upptökuna þar. 

Málþingið "Vistgerðir á Íslandi" 17. mars 2017
Mynd: Erling Ólafsson

Frá málþinginu „Vistgerðir á Íslandi“