Pödduvefur uppfærður

25.04.2017
Rottumítill - Ornithonyssus bacoti
Mynd: Erling Ólafsson

Rottumítill, nýjasta nýtt á pödduvefnum.

Pödduvefur Náttúrufræðistofnunar Íslands hefur verið yfirfarinn og uppfærður og þar er nú að finna upplýsingar um 355 tegundir. Skipulag á uppröðun efnis hefur verið bætt og mikið er af nýjum upplýsingum um tegundir og tegundahópa.

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að yfirfara og uppfæra upplýsingar í gagnagrunninum sem liggur að baki pödduvefnum. Farið var kerfisbundið yfir allar skráningar og bætt við þær og lagfært eftir þörfum í þeim tilgangi að birta sem nýjastar og réttastar upplýsingar. Nú er allri grunnvinnu lokið, hver og ein padda er komin á sinn rétta stað í flokkunarkerfi dýraríkisins og texti hefur allur verið yfirfarinn.

Stysta leiðin inn á pödduvefinn er um hnappinn PÖDDUR á forsíðu ni.is. Á næstu síðu liggja leiðir inn í flokkunarkerfi þriggja fylkinga smádýra sem koma fyrir á landi, þ.e. liðdýra, lindýra og liðorma. Einnig er þar hnappurinn LEITA AÐ PÖDDUM.

Þegar farið er inn í flokkunarkerfið má rekja sig eftir því jafnt upp sem niður frá fylkingum til tegunda og öfugt. Hverju þrepi sem birtist fylgja upplýsingatextar. Þannig má fræðast um fylkingar, ættbálka og ættir og svo að sjálfsögðu tegundirnar sjálfar. Með þessari uppsetningu falla saman skyldleikahópar og skyldar tegundir. Þegar ákveðinn ættbálkur er valinn birtast undir honum ættir hans og þegar einhver ættanna er valin birtast þær tegundir hennar sem fjallað er um á vefnum, og svo framvegis. Auðveldar þetta samanburð.

Þegar hnappurinn LEITA AÐ PÖDDUM er valinn opnast síða þar sem má í fyrsta lagi slá inn tegundaheiti og komast beint inn á valda tegund fram hjá flokkunarkerfum, nokkurs konar flýtileið. Þar eru einnig síur til að þrengja tegundasafnið og takmarka leitina við búsvæði. Með síun má velja tegundir sem finnast í náttúrunni, görðum eða húsum, slæðinga með varningi, flækinga með vindum og að síðustu tegundir sem hafa numið landið á síðustu áratugum. Sumar tegundir flokkast undir fleiri en einn flokk.

Hverri tegund fylgir kort sem sýnir fundarstaði hennar á landinu. Hafa skal í huga að punktar á korti byggjast alfarið á skráðum eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar og gefa því aðeins til kynna raunverulegt útbreiðslumynstur.

Pödduvefurinn verður áfram í markvissri uppbyggingu með innsetningu nýrra tegunda og endurskoðun eldri texta. Einnig uppfærast útbreiðslukortin eftir því sem eintök bætast í safn stofnunarinnar frá nýjum fundarstöðum. Framvegis verður athygli vakin á nýjungum á vefnum á Facebook-síðu stofnunarinnar. Þar er nú rottumítill kynntur til sögunnar.